Fundargerðir

15. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf.

Mætt; Helga Þorbergsdóttir,  Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson, Ágúst Sigurðsson og Örlygur Karlsson.

Forföll boðaði Elín Björg Jónsdóttir.

Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir

 

Fyrir fund stjórnar var haldinn sameiginlegur fundur með stjórn átaksverkefnis í V.Skaftafells- og Rangárvallasýslum. Á þann fund voru mættir auk framangreindra stjórnarmanna HfSu; Ólafía Jakobsdóttir, Ólafur Eggertsson, Sveinn Pálsson og Sverrir Magnússon sem ásamt Rögnvaldi Ólafssyni skipa stjórn átaksverkefnisins. Ragnhildur Sveinbjörnsdóttir verkefnisstjóri, Þórður Tómasson Skógasafni og Eygló Harðardóttir atvinnuráðgjafi sátu einnig fundinn.

  1. Ólafur Eggertsson gerði grein fyrir hugmyndum um það sem nefnt hefur verið setur lífrænna orkugjafa. Í máli Ólafs kom fram að vinna er hafin við að kanna raunhæfi hugmynda um að framleiða lífræna orkugjafa úr t.d. repju, lífmassa, hauggasi ofl. Einnig fjallaði Ólafur um kornrækt og úrvinnslu úr þeirri ræktun. Í máli hans kom fram að nú þegar er talsverð reynsla af fjölbreyttri ræktun í héraði og aukið samstarf farið af stað við fagaðila, m.a. Landbúnaðarháskólann að Hvanneyri um þessi mál.

 

  1. Þórður Tómasson fór yfir sögu Skógasafnsins og gerði grein fyrir sínum hugmyndum um Þjóðháttasetur að Skógum og því liði sem hann vill leggja uppbyggingu slíks seturs. Hann nefndi m.a. merkilegt heimildasafn sitt um íslenska þjóðhætti.

Sverrir Magnússon gerði svo frekari grein fyrir hugmyndum um þjóðháttasetur að Skógum. Í máli hans koma m.a fram áformað er að um rannsóknarstofnun verði að ræða og mikilvægt að embætti minjavarðar Suðurlands komi að Skógum. Að Skógum er gott húsnæði til staðar og tengsl við innlenda og erlenda háskóla mikilvæg.

 

  1. Sveinn Pálsson sagði frá uppbyggingu Kötluseturs í Vík. Uppbygging er þegar hafin og fyrir liggur áætlun sem sameinar fræðastarf, fræðslu og ferðaþjónustu.

 

  1. Ólafía Jakobsdóttir gerði grein fyrir áformum um uppbyggingu eldfjallaseturs að Klaustri fyrr og nú. Uppbygging setursins skal byggja á því starfi sem unnið hefur verið á Kirkjubæjarstofu.

 

  1. Rögnvaldur Ólafsson var síðastur á mælendaskrá stjórnarmanna átaksverkefnisins. Hann fjallaði um möguleika á því að koma Íslandi sem eldstöð á úthafshrygg á heimsminjaskrá UNESCO. Hann gerði grein fyrir hugmyndum um uppbyggingu setra tengdum eldvirkni víða um landið. Margar helstu eldstöðvar okkar eru á sunnanverðu landinu, því er álitlegt að sameina krafta dreifðra setra með grunnstarfsemi í Eldfjallasetri Íslands á starfssvæði átaksverkefnisins.

Miklar umræður urðu í kjölfar framangreindra erinda og munu stjórnarmenn vinna áfram að staðbundnum verkefnum í samvinnu við sitt heimafólk. Einnig verður áfram unnið að framgangi verkefnanna sameiginlega innan stjórnar verkefnisins.

Fundarmenn aðrir en þeir sem sitja í stjórn Háskólafélagsins viku af fundi kl. 17:15 og hófst þá eiginlegur stjórnarfundur.

 

  1. Ráðning framkvæmdastjóra. Umsóknarfrestur um stöðu framkvæmdastjóra félagsins rann út þann 31. október s.l. 7 umsóknir bárust. Stjórnarmenn munu fara yfir umsóknirnar og stefnt að því að taka viðtöl við þá umsækjendur sem í þau verða boðaðir í vikunni 10.-15. nóvember. Rætt um hvort fela ætti óháðri ráðningaskrifstofu að koma að því ferli. Stjórnarmenn munu hafa samskipti í tölvupósti varðandi framhaldið.

 

  1. Húsnæði. Steingerði falið að finna skrifstofuaðstöðu fyrir væntanlegan framkvæmdastjóra.

 

  1. Samþykkt að halda daglangan vinnufund stjórnar að Heklusetrinu Rangárþingi Ytra þann 27. nóvember n.k.

 

Fundi slitið kl. 18. 40