Við úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands í apríl sl. kom margt áhugavert og skemmtilegt í ljós. Í ár bárust sjóðnum 134 umsóknir sem skiptust í 89 menningarverkefni og 45 atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni.
Starfsstöðvar byggðaþróunarfulltrúa á Suðurlandi eru sjö talsins en byggðaþróunarfulltrúa má finna í Mýrdalshreppi, í neðri hluta Árnessýslu, Vestmannaeyjum, Rangárvallarsýslu, Uppsveitum Árnessýslu, Skaftárhreppi og Hornafirði. Það má áætla að einhver fjöldi þeirra verkefna sem bárust Uppbyggingarsjóðnum eigi viðkomu hjá byggðaþróunarfulltrúunum sem styðja við og aðstoða við umsóknarferlið hjá þeim sem þess óska, endurgjaldslaust.
Ingunn Jónsdóttir er byggðaþróunarfulltrúi neðri hluta Árnessýslu sem nær til Ölfuss Hveragerðis, Árborgar og Flóahrepps. Til neðri hluta Árnessýslu bárust 48 umsóknir í sjóðinn en 28 hlutu brautargengi, 23 verkefni úr flokki menningarverkefna en úr flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna voru þau 5 talsins. Í neðri hluta Árnessýslu fóru því 20% af heildarfjölda umsókna í vorúthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands og voru veittar 15 milljónir til svæðisins. Menning og listir eru áberandi og verður spennandi að uppskera öll þessi áhugaverðu verkefni sem koma til með að líta dagsins ljós á árinu. Verkefni í flokki atvinnuþóunar og nýsköpunar taka oftar en ekki aðeins lengri tíma til að þróast og stækka og bíðum við full eftirvæntingar eftir þeirra afrakstri.
Af þessum 28 verkefnum sem hlutu styrk voru konur 64% umsækjenda en karlar 36%. Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar skiptust umsækjendur í tvo karlar og þrjár konur en það er áhugavert að sjá hversu margar konur hafa lagt af stað í þessa vegferð sem Uppbyggingarsjóður Suðurlands býður upp á. Búast má við mörgum gefandi verkefnum í formi tónlistar og sögu, kvikmyndagerðar og matvælaframleiðslu og hlökkum við til að sjá þessi verkefni vaxa og dafna á næstu mánuðum.