27. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn þann 31. ágúst 2010 í hópferðabifreið á leið frá Bifröst til Ólafsvíkur.
Mætt: Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri, Ágúst Sigurðsson, Elín Björg Jónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir og Örlygur Karlsson. Sveinn Aðalsteinsson slóst í hópinn er komið var til Ólafsvíkur. Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir. 1. Ráðning verkefnastjóra hjá Háskólafélaginu. Leitað var til Hagvangs með úrvinnslu umsókna en 25 umsóknir bárust um starfið. Steingerður gerði grein fyrir stöðu málsins og henni og Sigurði falið að vinna það áfram. 2. Stjórn Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands. Háskólafélagið skal tilnefna tvo fulltrúa í stjórn. Sigurður Sigursveinsson og Sveinn Aðalsteinsson tilnefndir aðalmenn, Örlygur Karlsson og Steingerður Hreinsdóttir til vara. Samþykkt að Háskólafélagið leggi eitt hundrað þúsund krónur í sjóðinn. Fleira ekki gert á formlegum fundi og honum slitið kl 17. Í tengslum við þennan fund var farið í ferð um Vesturland og háskólar og fræðasetur heimsótt og stjórnarmenn fengu kynningu á starfsemi þeirra. Fyrsti viðkomustaður var Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Ágúst Sigurðsson rektor tók á móti stjórninni ásamt sínu fólki og kynnti frjóa og fjölbreytta starfsemi skólans sem fer fram á nokkrum starfsstöðvum, m.a. á Suðurlandi. Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands kom að Hvanneyri og kynnti stjórnarmönnum það starf sem þar fer fram, þróun undanfarinna ára og helstu framtíðaráfom. Í máli hennar kom m.a fram að starfsemin hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og ekkert lát á þeirri þróun. Annar viðkomustaður stjórnar var Reykholt í Borgarfirði. Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu-Rannsóknarseturs í miðaldafræðum tók á móti stjórnarmönnum. Í máli hans kom m.a fram að fjöldi gesta á síðasta ári var um eitt hundrað og fjörutíu þúsund og að heilsársstörf við stofuna eru 8,25. Bergur fór yfir starfsemi og markmið stofunarinnar, rannsóknir, útgáfu bóka, sýningar o.fl. Þá var haldið að Bifröst. Magnús rektor og hans fólk sýndu aðstöðu og fóru yfir stöðu og starfsemi skólans, sem byggir á gömlum merg. Auk kynningar á núverandi starfsemi á Bifröst urðu líflegar umræður um möguleika og líklega þróun háskólanáms í landinu. Þá kom m.a fram að viðræður eru í gangi milli Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík um sameiningu. Síðast var farið í heimsókn í Vör -Sjávarrannsóknarsetrið við Breiðafjörð, en stofnunin er til húsa í Ólafsvík, og þar bættist Sveinn Aðalsteinsson stjórnarmaður í hópinn. Þar tóku á móti hópnum Jón Einar Jónsson forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsness, Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarsvörður í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og Erla Björk Örnólfsdóttir forstöðumaður Varar. Í kynningu Jóns Einars á Háskólasetrinu kom fram að áhersla starfsins þar er á rannsóknir á fuglum og verkefni tengd sérstöðu svæðisins og kynnti hann slík verkefni. Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður sagði frá þjóðgarðinum, friðlöndum í nágrenni hans og gerði grein fyrir starfsemi, rannsóknum og verkefnum tengdum honum. m.a. nefndi hún dæmi um verkefni í samstarfi við ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Erla Björk greindi frá starfsemi Varar og þeim rannsóknum sem þar eru unnar á lífríki sjávar. Stjórnarmenn fengu m.a verklega sýnikennslu í krufningu á beitukóngi. Auk fastra starfsmanna í þessum stofnunum nýta háskólanemar á öllum stigum sér aðstöðu þeirra til náms og verka. Stjórn Háskólafélags Suðurlands er stórum fróðari eftir heimsóknir í öflugar stofnanir og fræðasetur Vesturlands og margt sem þar var kynnt er innblástur í því verkefni að styrkja stoðir byggðar á Suðurlandi. Stjórnin þakkar Vestlendingum góðar móttökur og ljóst er að samvinna milli fjórðunga á sviði hverskyns fræðastarfsemi er mikils vísir. |