- fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn í Glaðheimum 14. júní 2011.
Mætt: Ágúst Sigurðsson, Elín Björg Jónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson. Einnig sat Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins fundinn.
Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir.
- Áritun ársreiknings 2010. Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi fylgdi reikningnum úr hlaði og skýrði hvað liggur að baki helstu þáttum hans. Skv. rekstrarreikningi var eigið fé félagsins í árslok kr. 74.964.852. Rekstrartekjur voru 24.658.554, rekstrargjöld 30.612.467. Bókfært tap ársins eftir fjármagnsliði nam kr. 2.127.628
Reikningurinn ræddur og Sigurði falið að taka saman yfirlit yfir tekjur og gjöld vegna einstakra verkefna s.l. tvö ár. Elínu Björgu og Sigurði falið að ganga frá málum varðandi lífeyrisskuldbindingar vegna framkvæmdastjóra. Stjórnarmenn samþykktu ársreikninginn með undirritun sinni.
- Fundargerðir frá 28. og 29. fundum stjórnar lagðar fram, ræddar og samþykktar.
- Steingerður gerði grein fyrir stöðu mála vegna IPA verkefnisins sem er orðið hluti af landsáætlun. Mikil vinna hefur verið lögð í verkefnið og líkur á að talsvert fjármagn fáist til þess árið 2012. Þetta er tveggja ára verkefni sem hefst árið 2012 og lýkur árið 2014. Steingerður, Sigurður og Rögnvaldur hafa borið hita og þunga af vinnu við allt ferlið tengt þessu verkefni og er ástæða til að þakka þeim þá frumkvöðlavinnu sérstaklega. Steingerður gerði jafnframt grein fyrir þeirri vinnu sem nú er í gangi í Kötlu Geopark. Þar er m.a. unnið að skiltagerð og von er á aðilum frá European Geopark samtökunum til að meta verkefnið.
- Sigurður sagði frá Matarsmiðju Suðurlands á Flúðum sem tók formlega til starfa þann 12. maí sl. Stjórn Háskólafélagsins hefur hug á að þess þáttur í verkefninu tengist fjárfestingu í þekkingu.
Undirritaður hefur verið stefnumarkandi samstarfssamningur milli HfSu og Matvæla- og næringarfræðideildar HÍ.
- Sigurður fór yfir námskeið sem haldin hafa verið á vegum HfSu í samvinnu við aðra.
Leiðsögn í jarðvangi; námskeiðið var haldið í samvinnu við Fræðslunet Suðurlands og fékkst til þess 728 þús. króna styrkur úr Starfsmenntasjóði. Í lok námskeiðs létu þrír fjórðu þátttakenda í ljós áhuga á frekara námi á þessu sviði. Fyrirhuguð er norræn samvinna um námskeiðshald í leiðsögn í jarðvöngum.
Námskeið í fuglaleiðsögn; fyrir leiðsögumenn og ferðaþjónustuaðila. Átján þátttakendur voru á námskeiðinu sem var niðurgreitt af klasanum „Fuglar á Suðurlandi.“
Alþjóðlegt meistaranám um náttúruhamfarir; haldið í samvinnu við Jarðskjálftamiðstöð HÍ Selfossi er í gangi og lýkur 18. júní n.k. Þátttakendur eru tuttugu og fjórir frá sjö þjóðlöndum.
- Starfsmannamál.
Ragnhildur Sigurðardóttir hefur ráðið sig í annað starf. Ákveðið að starfshlutfall Hrafnkels hækki í 100% í haust.
- Önnur mál. Stjórnin mun óska eftir fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis þegar líður að hausti.