31. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn í Glaðheimum 8. nóvember 2011.
Mætt: Steingerðu Hreinsdóttir, Elín Björg Jónsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson. Ágúst Sigurðsson sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað. Einnig sátu fundinn Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins og Hrafnkell Guðnason verkefnastjóri Háskólafélagsins sem ritaði fundargerð. 1. Sigurður lagði fram fundargerð síðasta fundar til undirritunar og var hún samþykkt án athugasemda. 2. Sigurður gerð grein fyrir starfi HfSu frá síðasta fundi og kom fram í máli hans að mikill tími hefði farið í málefni jarðvangsins síðustu mánuði. Hann sagði frá útgáfu bæklings Kötlu jarðvangs en ákvörðun um útgáfu hans var tekin í kjölfar ábendinga frá útektaraðilum frá GGN ( Global Geoparks Network)/EGN (European Geoparks Network) varðandi meiri sýnileika jarðvangsins. Mikil vinna var lögð fram vegna umsóknarinnar í GGN meðal annars móttöku úttektaraðila, frágang umsóknar og fleira. Katla Geopark hlaut svo viðurkenningu sem Geopark með inngöngu í GGN/EGN á fundi í Noregi í haust sem Sigurður, Steingerður og Þuríður H. Aradóttir sóttu. Í kjölfar gossins í Grímsvötnum fékkst styrkur til ráðningar starfsmanna og voru fjórir starfsmenn ráðnir í tímabundin verkefni fyrir jarðvanginn þær Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir, Inger Schiöth, Þuríður Helga Benediktsdóttir og Kolbrún Hjörleifsdóttir. Ragnhildur Sveinbjarnardóttir fór í fæðingarolof í byrjun maí og varð það að ráði að bakhópurinn tæki að sér að halda verkefninu gangandi við brotthvarf hennar. Í júlí komu tveir úttektaraðilar frá GGN/EGN og var farið með þá í ferð um jarðvanginn. Fyrir heimsókn þeirra var lögð áhersla á að setja upp skilti og tókst það, þó á síðustu stundu hafi verið. Ánægjulegt var hvað heimamenn, meðal annars ferðaþjónustuaðlilar og sveitastjórnir, voru áhugasamir um þessa heimsókn og tóku hópnum mjög vel. Greint var frá hinni daglegu önn í Glaðheimum, um 400 próftökur voru á síðustu önn, mest í maí en þó dreifast próf yfir alla mánuði ársins. Stór hópur í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri var tekinn inn í haust, milli 60 og 70 nemendur skráðu sig á Selfoss en þar sem ekki er möguleiki að taka við svo stórum hópi nemenda í Glaðheima náðist samkomulag við HA um að sjá nemum af Reykjarvíkursvæðinu fyrir aðstöðu í Hafnarfirði, en milli 20 og 30 sækja fyrirlestra reglulega í Glaðheima. Sigurður sagði frá ýmsum smærri verkefnum svo sem þátttöku í ráðstefnu á Hótel Örk, fundar og vinnu hans og Steingerðar vegna samnings við ráðuneytið og ferð á ráðstefnu til Tyrklands. Vinna vegna náms á matvælasviði er að fara af stað í kjölfar fundar með Ólafi Unnarssyni matvælafræðingi í MS og búið er að hafa samband við annan sérfræðing vegna hugsanlegrar ráðgjafar og samstarfs. 3. Hrafnkell Guðnason gerði einnig grein fyrir öðrum verkefnum félagsins síðustu mánuða. Námskeiðið Natural Catastrophes, sem var haldið í samvinnu við Rannsóknarmiðstö HÍ í jarðskjálftaverkfræði, gekk vonum framar og sóttu það 24 nemendur þar af 22 erlendis frá. Nemendagjöld stóðu undir kostnaði við námskeiðið og almenn ánægja var meðal þátttakenda með allt skipulag í sambandi við námskeiðið. Nú þegar er undirbúningur hafinn fyrir námskeiðið að vori sem þó verður kennt með örlítið breyttum áherslum. Námskeið var haldið í Geoturism í ágúst í samvinnu við Líf- og umhverfisdeild HÍ, kennsla fór að mestu fram í Hellishólum í Fljótshlíð en einnig var farið í vettvangsferðir og síðasti kennsludagur var í Glaðheimum. Til landsins var fenginn Dr. Ross Dowling frá Ástralíu sem aðalkennari og að námskeiði loknum hélt hann opinn fyrirlestur í sal Þjóðminjasafnsins á vegum HfSu um jarðminjaferðamennsku (geotourism) og starfsemi jarðvanga. Þessi verkefni tengjast öll verkefninu Fræðandi ferðaþjónusta sem HfSu er að vinna í samvinnu við Markaðsstofu Suðurlands og Háskólasetrið á Höfn, en í tengslum við það verkefni var meðal annars haldinn fundur í Vík í sumar með ýmsum aðilum sem tengjast ferðaþjónustu til þess að ná að kortleggja tækifæri í fræðandi ferðaþjónustu á Suðurlandi. Í tengslum við verkefnið er verið að skipuleggja fleiri fundi og heimsóknir til ferðaþjónustuaðlia á svæðinu, útbúa bækling og fleira til þess að fræða ferðaþjónustuaðla um verkefnið og tækifærin sem geta falist í fræðandi ferðaþjónustu. 4. Sigurður lagði fram drög að samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum. Sigurður lagði fram tillögu að minni háttar breytingum á samþykktum HfSu þar sem undirtitill í nafni félagsins verður „Þekkingarnet á Suðurlandi“, og er þetta gert í samráði við ráðuneytið. 5. Sigurður sagði frá nýlegri heimsókn tveggja ráðgjafa vegna IPA styrksins. Samkvæmt þeim er styrkurinn örugglega í höfn en nú fer af stað ferli sem snýr að því að færa umsóknarferlið yfir í samningsferli, fundurinn gekk að mestu út á að leiðbeiningar við gerð skjala sem þurfa að liggja fyrir þann 21. nóvember en reiknað er með að skrifað verði undir endanlegan samning á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi næsta árs. 6. Jólafundur stjórnar var ákveðið að halda föstudaginn 9. des. og var Sigurði falið að skipuleggja hann nánar. 7. Undir liðnum önnur mál var rætt um að umhverfisráðuneytið hyggst halda upp á 200 ára ártíð Sveins Pálssonar og hafði Sveinn Runólfsson í Gunnarsholti haft samband við Sigurð vegna málsins. Ráðstefna er ráðgerð í Reykjavík, voru fundarmenn ánægðir með viðburðinn en voru allir á því máli að eðlilegra væri að halda slíka ráðstefnu á Suðurlandi og þá helst í Mýrdalnum. Fleira ekki rætt og fundi slitið klukkan 16.40 |