35. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn á Sólheimum í Grímsnesi þann 20.08.2012 Mætt: Elín Björg Jónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson. Forföll boðaði Ágúst Sigurðsson . Fundinn sátu einnig Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri og Hrafnkell Guðnason verkefnastjóri. Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir. Axel Benediktsson forstöðumaður Sesselíuhúss tók á móti stjórn og starfsmönnum, kynnti fjölbreytta starfsemi að Sólheimum og leiðsagði um staðinn. 1. Fundargerð síðasta fundar lögð fram, samþykkt og undirrituð. 2. Samþykkt að fastir fundir stjórnar verði annan mánudag annars hvers mánaðar kl 10-13 á komandi vetri, þ.e. í október, desember, febrúar og apríl. Aðalfundur verður í maí í samræmi við samþykktir félagsins. 3. Sigurður og Hrafnkell gerðu grein fyrir helstu málum sem unnið hefur verið að undanfarið: A. Húsnæðismál. Verið er að undirbúa undirritun samnings við Sveitarfélagið Árborg um leigu á hluta Sandvíkurskóla við Bankaveg, Selfossi. B. Matvælasmiðja. Styrkur fékkst árið 2010 úr vaxtarsamningi til verkefnisins. Matvælasmiðjan hóf starfsemi 2011. Unnið hefur verið að því að koma af stað matvælatengdu námi í tengslum við smiðjuna. Dr. Einar Matthíasson hefur skilað tillögum um tilhögun slíks náms. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu þar sem áhersla verði lögð á samvinnu við fyrirtæki á svæðinu með það að leiðarljósi að mæta þeirra þörfum til styrkingar. C. Fræðandi ferðaþjónusta. Sl. vor var öðru sinni haldið alþjóðlegt námskeið á meistarastigi, Natural Disaster Management, í samvinnu við Jarðskjálftamiðstöð HÍ á Selfossi. Þátttakendur voru tólf frá átta þjóðum. Í fyrravor var einnig haldið námskeið tengt fuglafræðum í samvinnu við Rannsóknarsetur HÍ á Selfossi, og í fyrrahaust meistaranámskeið um jarðminjaferðamennsku í samvinnu við HÍ. Áhugi er á að þróa námskeið af þessum toga frekar. D. Þolpróf íslenska hestsins. Rannsóknir á þolþjálfun hrossa, í samvinnu við Dýralæknaþjónustu Suðurlands, Hólaborg, Úrvalshesta og Landbúnaðarháskóla Íslands. Styrkur fékkst til verkefnisins úr Vaxtarsamningi Suðurlands og Þróunarframlagi hrossaræktarinnar. Verið er að vinna rannsóknaráætlun og gert ráð fyrir að farið verði af stað i haust. Einnig hefur aðili í framleiðslu á þjálfunarbrettum fyrir hesta haft samband við HfSu með mögulega samvinnu í huga. E. Katla jarðvangur. Búið er að greiða út hluta af IPA styrk og verkefnið er að fara af stað. 4. Rætt um stöðu og stefnu Háskólafélagsins, farið yfir framtíðarsýn og markmið félagsins sem sett voru á upphafsdögum þess og enn eru í góðu gildi. Rætt um skilgreiningu á hlutverki félagsins sem í hnotskurn er að: · Mynda þekkingarnet á Suðurlandi, þar sem áhersla er lögð á árangur við rannsóknir, menntun og nýsköpun í virku samstarfi fyrirtækja stofnana og háskóla. · Hækka menntunarstig og auka fjölbreytni í atvinnutækifærum á Suðurlandi með öflugri upplýsingagjöf og eftirfylgni, virkri náms- og starfsráðgjöf og góðri aðstöðu til fjarnáms sem og staðbundins náms. · Fjölga atvinnutækifærum á Suðurlandi sem byggja á vísinda og fræðastarfi. · Vera öflugur bakhjarl og hvati við sköpun tækifæra til rannsókna á náttúru, lífríki, menningu, atvinnuvegum og mannlífi á Suðurlandi. · Tryggja nemendum í námi á háskólastigi góða möguleika hvort sem um er að ræða grunn- eða framhaldsnám, sí- eða endurmenntun. · Vinna með frumkvöðlum og sprota- og þekkingarfyrirtækjum sem vilja styrkja starfsemi sína á Suðurlandi í tengslum við stoðkerfi atvinnulífsins, meðal annars með sameiginlegri sókn í sjóði til nýsköpunar. Flest þau verkefni sem hafa verið og unnin eru á vegum Háskólafélagsins eru í góðu samræmi við stefnu félagsins sem mörkuð var, en enn er mikið verk að vinna. Rögnvaldur gerði grein fyrir vinnu við sóknaráætlun landshlutanna og reynslu Austfirðinga af sameiningu stoðstofnana. Fundi slitið kl. 16. Fundarmenn þakka góðar mótttökur og fundaraðstöðu á Sólheimum. Elín Björg Jónsdóttir Helga Þorbergsdóttir Rögnvaldur Ólafsson Steingerður Hreinsdóttir Sveinn Aðalsteinsson Örlygur Karlsson