37. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn í Glaðheimum þann 10.12.12 kl 10. Mætt: Ágúst Sigurðsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson. Einnig sat Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins fundinn og Hrafnkell Guðnason verkefnastjóri að hluta. Forföll boðuðu Elín Björg Jónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson. Fundargerð ritaði Sigurður Sigursveinsson. 1. Fundargerð síðasta fundar lögð fram samþykkt og undirrituð. 2. Fjármál og styrkjastaða. Framkvæmdastjóri gaf yfirlit um verkefnatekjur á árinu en alls var um tólf verkefni að ræða auk ríkisframlags á fjárlögum. Stærsti styrkurinn er IPA styrkurinn frá Evrópusambandinu vegna verkefnisins Katla Geopark. Þá var greint frá ýmsum verkefnum sem eru í burðarliðnum. 3. Samningar við ráðuneytið. Fyrsti samningur félagsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið var undirritaður 9. desember 2011 og tók til áranna 2011-2013. Framundan er því endurnýjun hans frá 1. janúar 2014. Hornfirðingar eru orðnir aðilar að SASS og Vaxtarsamningi Suðurlands en fylgja enn samningi Þekkingarnets Austurlands varðandi framhaldsfræðslu og þjónustu við háskólanema en sá samningur rennur líka út í árslok 2013. Ríkisstjórnin hefur kynnt áform um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Fram hefur komið að Hornfirðingar sjá fyrir sér samvinnu Nýheima og þekkingarsetursins á Kirkjubæjarklaustri. Nú eru Fræðslunetið og Háskólafélagið að komast undir eitt þak á Selfossi, það skapar sóknarfæri til að efla þjónustuna á starfssvæði þeirra, en í dag nær það austur að Skeiðarársandi. Einnig kom fram að unnið er að Sóknaráætlun Suðurlands og verða á vettvangi hennar væntanlega gerð tillga um að veita fjármagni til að efla þjónustuna á miðsvæðinu, þ.e. í Vestur-Skaftafellssýslu (Vík og Kirkjubæjarklaustri). 4. Verkefni og starfsmannahald. Háskólafélagið á aðild að tveimur nýjum umsóknum um IPA verkefni. Tvö ný erlend samstarfsverkefni eru að fara af stað, bæði tengd jarðvanginum, og það þriðja í umsóknarferli. Félagið hefur tekið að sér að vinna fyrir og með Fræðslunetinu varðandi styrk úr þróunarsjóði framhaldsfræðslu, í undirbúningi er þriðja alþjóðlega sumarnámskeiðið með jarðskjálftamiðstöðinni á Selfossi, og í athugun er fuglanámskeið í samvinnu við Rannsóknarsetur HÍ á Suðurlandi. Steingerður Hreinsdóttir kom til starfa sem rekstrarstjóri IPA verkefnisins um Kötlu jarðvang 1. desember sl., og jafnframt kom þá til starfa við verkefnið Ragnhildur Sveinbjarnardóttir ferðamálafræðingur en hún er jafnframt starfsmaður Markaðsstofu Suðurlands. 1. febrúar kemur Rannveig Ólafsdóttir til starfa við IPA verkefnið og verður með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri og 1. júní kemur Jóna Björk Jónsdóttir til starfa við IPA verkefnið. Í byrjun janúar kemur Ingunn Jónsdóttir til starfa sem sameiginlegur starfsmaður HfSu og Matís. Hún veitir Matarsmiðjunni á Flúðum forstöðu en sinnir jafnframt þróun námsbrauta í matartengdum greinum hjá HfSu. Þá koma í janúar tveir baskneskir háskólaborgarar í hálfs árs starfsþjálfun fyrir milligöngu félagsins, annar er jarðfræðingur og vinnur að verkefnum fyrir Kötlu jarðvang en hinn aðstoðar við spænskukennslu í FSu. 5. Önnur mál. Rætt um gjaldtöku nemenda í nýju húsnæði og kynnt yfirlit um gjaldtöku í sambærilegri starfsemi annars staðar á landinu. Samþykkt að gjald fyrir 2 klst próf og styttra verði 3.000 kr. en 4.000 kr. fyrir lengri próf. Gjald fyrir aðgang að lesstofu frá morgni til kvölds alla daga vikunnar verði 12.000 krónur á önn og þá falli niður gjaldtaka fyrir próftöku viðkomandi nemenda. Jafnframt er innifalinn aðgangur að kaffistofu sem nýtist einnig til hópavinnu. Fundi slitið um kl. 12:20 og snæddur hádegisverður á Hótel Selfossi og jafnframt gefinn kostur á skoðunarferð um nýja húsnæðið í Sandvíkurskóla, en afhendingu þess hefur seinkað nokkuð. ______________________ _____________________ Ágúst Sigurðsson Steingerður Hreinsdóttir ______________________ _____________________ Sveinn Aðalsteinsson Örlygur Karlsson