4. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn þann 10.03. 2008 kl. 13.00 að Austurvegi 56, Selfossi. Mætt: Ágúst Sigurðsson, Elín Björg Jónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir og Örlygur Karlsson Forföll: Sveinn Aðalsteinsson. Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir. 1. Fundargerð síðasta fundar lögð fram, samþykkt og undirrituð. 2. Staða verkefna. A. Steingerður gerði grein fyrir stöðu mála varðandi umsókn til Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja sbr. bókun síðasta fundar. Umsókn er í burðarliðnum og mun Steingerður fullvinna hana. B. Steingerður lagði fram drög að samningi við Svein Aðalsteinsson um söfnun aukins hlutafjár í Háskólafélagið. Samþykkt að fresta afgreiðslu þar sem stjórnarmenn vildu vinna stefnumörkun og áætlanir fyrir félagið lengra áður en hafist væri handa við frekari söfnun hlutafjár. C. Samþykkt að sækja til Atvinnuþróunarfélags Suðurlands um að það úthluti Háskólafélaginu 100 ráðgjafatímum auk þeirra 35 tíma sem félagið fær skv. reglum Atvinnuþróunarfélagsins um ný fyrirtæki á Suðurlandi. Umsóknin er til komin vegna þess að mikla vinnu þarf að leggja í stefnumótun og framkvæmdaáætlun á næstu vikum og mun þungi þeirrar vinnu einkum leggjast á formann stjórnar. D. Lagt fram yfirlit tekið saman af Sveini Aðalsteinssyni um útstöðvar og nemendur í fjarkennslu á háskólastigi, sbr. bókun síðasta fundar. Fram kemur að árið 2006 voru 90 fjar-nemendur skráðir í Háskólann á Akureyri gegnum Fræðslunet Suðurlands og Visku og árið 2007 voru 46 nemendur skráðir. Námsgreinar bæði árin voru: Hjúkrunarfræði, grunnskólakennarafræði, leikskólakennarafræði, auðlindafræði og viðskiptafræði. Við aðra háskóla voru skráðir 5- 7 nemendur gegnum fræðslunetið. Skýringa á mun færri nemendum árið 2007 er m.a. að leita í því að í sumar greinar, t.d. hjúkrunarfræði er tekið inn annað hvert ár. Virkar stöðvar þessi ár voru auk Selfoss, Flúðir(2), Hvolsvöllur(5-6) og Vík(4). Einnig kemur fram að fjarnemendur í Vestmannaeyjum voru 18 árið 2006 og 14 árið 2007. Stjórnarmenn eru sammála um að leggja beri áherslu á að byggja upp góða aðstöðu til fjarnáms þannig að allir íbúar fjórðungsins eigi þar greiðan aðgang . Jafnframt var rætt um mikilvægi kynningar á námi og hvatningar til náms. Í því sambandi var rætt um að fá til fundar við stjórnina aðila sem hafa góða reynslu af slíkri vinnu. Einnig var rætt um að fá til fundar fulltrúa frá nýstofnuðum Fjöltækni skóla til skrafs og ráðagerða um mögulega samvinnu á háskólastigi. E. Á síðasta fundi stjórnar var Steingerði Örlygi og Rögnvaldi falið að ræða við fulltrúa úr stjórn fræðslunetsins um mögulegan grundvöll samstarfs, og eða skörun verkefna, Fræðslunetsins og Háskólafélagsins. Fyrir liggja skriflegar hugmyndir þar að lútandi undirritaðar af Ásmundi Sverri Pálssyni framkvæmdastjóra FnS og Gylfa Þorkelssyni formanns stjórnar FnS fyrir hönd stjórnar Fræðslunetsins. Svar þeirra fylgir þessari fundargerð en í megindráttum eru lagðir til tveir kostir.
Engu að síður væri hægt að semja við Fræðslunetið um vissa þjónustu við háskólafjarnema í samræmi við það hagræði sem báðar stofnanirnar yrðu ásáttar um og fyrir það kæmi greiðsla til starfsmanns FnS. Hér er þá gert ráð fyrir því að HFS ráði forstöðumann/framkvæmdastjóra sem vinni að framgangi og eflingu háskólanáms á Suðurlandi. Það er ákveðið álit Fræðslunetsins að þessi leið þjóni best hagsmunum núverandi og væntanlegra fjarnema á háskólastigi í héraðinu sem og sí- og endurmenntun en á þeim vettvangi eru mikil sóknarfæri sem FnS gæti nýtt enn betur.“ Steingerði, Rögnvaldi og Örlygi falið að útfæra þann kost að Háskólafélagið taki við allri umsýslu með háskólanámi í fjórðungnum sem FnS hefur haft með höndum, enda er það í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var við undirbúning að stofnun Háskólafélagsins. Þetta verði gert í samvinnu við framkvæmdastjóra og stjórn Fræðslunetsins og Menntamálaráðuneytið. Drög að samningi þar að lútandi milli Fræðslunetsins og Háskólafélagsins verði lögð fyrir næsta fund stjórnar. F. Á Suðurlandi eru háskólar og háskólatengd starfsemi til staðar og víða um fjórðunginn eru tækifæri, áhugi og hugmyndir um eflingu og nýsköpun á því sviði. Háskólafélagið getur, vill og á að styðja við og vera beinn aðili að því að þær hugmyndir verði að veruleika. G. Það er ljóst af framansögðu að Háskólafélag Suðurlands þarf, innan tíðar, að tryggja sér aðstöðu fyrir höfuðstöðvar stjórnsýslu. Komið hafa fram hugmyndir um að stofnanir svo sem Háskólafélag Suðurlands, Fræðslunet Suðurlands, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Menningarfulltrúi Suðurlands, Markaðsstofa Suðurlands, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, rannsóknarstofnanir á ýmsum sviðum s.s. jarðskjálfta, landbúnaðar, iðnaðar- og orkumála o.fl. starfi undir sama þaki. Samþykkt að fela Steingerði og Örlygi að ganga til könnunar viðræðna við framangreinda aðila um möguleika á samþættingu verkefna í sameiginlegu húsnæði með þeim formerkjum að þarfir Háskólafélags Suðurlands séu á þessu stigi ekki full skilgreindar en ljóst að félagið leggur áherslu á að þróttur þess verði ekki staðbundinn, heldur sitri til íbúa um fjórðunginn allan. Næsti fundur ákveðinn 28.03. nk. |