Fundargerðir

64. fundur

  1. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands haldinn 14. mars 2017 kl. 15-16 í Hamri, verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands. Eftirfarandi stjórnarmenn voru mættir í Hamar: Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Kristín Hermannsdóttir var á Skype en Dagný Magnúsdóttir og Helga Þorbergsdóttir boðuðui forföll. Þá sat framkvæmdastjóri fundinn og ritaði fundargerð.

Formaður setti fund, bauð fundarmenn velkomna og síðan var gengið til dagskrár.

  • Fundargerð 63. fundar staðfest með undirritun
  • Fjárveitingar á fjárlögum 2017

Þrátt fyrir 60 mkr viðbótarfjárveitingu sem fjárlaganefnd samþykkti í „ýmis smærri verkefni og styrki til aðila sem þjónusta háskólanna, svo sem til símenntunarmiðstöðva og fræðsluneta“ bólar ekkert á viðbótarfjárveitingu til Háskólafélagsins eða Fræðslunetsins þannig að óbreyttu lækkar fjárveitingin til Háskólafélagsins um tæpar 5 mkr frá fyrra ári. Stjórnin bókaði eftirfarandi í þessu sambandi:

Starfssvæði Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunetsins er mun stærra og fjölmennara en svæði sambærilegra stofnana á landsbyggðinni. Háskólafélagið sinnir nærþjónustu um gjörvallt svæðið, ólíkt mörgum þekkingarsetrum sem eru fyrst og fremst staðbundin og veita takmarkaða nærþjónustu.

Stjórnin vekur athygli mennta- og menningarmálaráðuneytisins á þeirri staðreynd að Alþingi hefur undanfarin ár veitt ítrekað tímabundnar viðbótarfjárveitingar til Háskólafélagsins/Fræðslunetsins til að koma til móts við ónógar fjárveitingar til þessa víðfeðma landssvæðis en í fjárlagagerðinni árið eftir hefur viðbótarfjárveitingin jafnan verið strikuð út.

Stjórnin skorar á ráðuneytið að nýta nú það svigrúm sem afgreiðsla Alþingis í desember sl. gaf í þessu sambandi, bæði varðandi skiptingu fjár 2017 og til frambúðar. Minnt er á aukna ábyrgð ráðuneytisins varðandi skiptingu fjár innan sinna málefnasviða og málaflokka með lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál.

  • Samstarfið við SASS

Samstarfið hefur gengið vel og á fundi stjórnar SASS 3. mars sl. var ákveðið að bæta 5 mkr við samninginn 2017. Stjórnin lýsir yfir ánægju með inntak og framkvæmd ráðgjafaverkefnisins en telur að tímagjald ráðgjafagreiðslna til HfSu sé enn of lágt og vinna beri að því með SASS að hækka það

Önnur mál

Fræðslunetið og Háskólafélagið. Í kjölfar síðasta stjórnarfundar var sent minnisblað til Fræðslunetsins í framhaldi af hugmyndum framkvæmdastjóra Fræðslunetsins um aukið samstarf félaganna og farið fram á fund með fulltrúum Fræðslunetsins um málin. Á fundi Fræðslunetsins 13. desember virðist ekki hafa verið tekin afstaða til beiðni félagsins um fund en bókað að stjórnin styddi aukna samvinnu félaganna og fól framkvæmdastjóra að gera stjórninni grein fyrir framgöngu samvinnunnar fyrir 1. júní nk.

Drög að Skýrslu um starfsemi félagsins 2016 lögð fram. Ábending kom fram um að hafa myndefni í skýrslunni.

Fyrstu niðurstöður úr könnun Félagsvísindastofnunar varðandi fjarnám á Suðurlandi o.fl. Skýrslan er væntanleg allra næstu daga.

Minnisblað um sameiginlega þætti í rekstri þekkingarsetra. Minnisblaðið kynnt, afurð ársfundar forstöðumanna þekkingarsetra 2017.

Fleira ekki og fundið slitið kl. 16 og haldið til vígslu verknámshússins Hamars.