7. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn þann 21.04. 2008 kl. 13.00 að Gunnarsholti á Rangárvöllum.
Mætt: Ágúst Sigurðsson, Elín Björg Jónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson
Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir
1. Fundargerð síðasta fundar lögð fram samþykkt og undirrituð.
2. Starfsmannamál. Stjórnin er sammála um að nauðsynlegt sé að ráða starfsmann til að vinna að framgangi þeirra mála sem nú eru á borði Háskólafélagsins. Ákveðið að leita leiða til að ráða starfsmann til 3 mánaða. Þar sem um tímabundna ráðningu er að ræða og mikilvægt að starfsmaðurinn geti hafið störf sem fyrst er Steingerði falið að hafa samband við líklega kandidata
3. Önnur mál. Í framhaldi af síðasta fundi stjórnar sem haldinn var með forsvarsmönnum jarðskjálftamiðstöðvar Suðurlands hefur komið fram áhugi á að Háskólafélagið taki, ásamt Jarðskjálftamiðstöðinni, þátt í að koma upp öflugu alþjóðlegu framhaldsnámi á háskólastigi í jarðskjálftafræðum. Innan Jarðskjálftamiðstöðvarinnar hefur þegar verið unnin talsverð undirbúningsvinna að því verkefni. Ágúst mun hafa samband við forstöðumann Jarðskjálftamiðstöðvarinnar og koma á tengslum til að þróa þá hugmynd áfram ásamt öðrum stjórnarmönnum.
Kl. 14:30 mættu til fundar; Sveinn Runólfsson og Magnús Jóhannsson frá Landgræðslunni Gunnarsholti. Guðríður Helgadóttir frá Landbúnaðarháskólanum að Reykjum í Ölfusi. Erlingur Jóhannsson og Sigurbjörn I Arngrímsson frá Rannsóknarsetri HÍ í íþróttafræðum að Laugarvatni og Ólafía Jakobsdóttir frá Kirkjubæjarstofu að Kirkjubæjarklaustri, til að ræða þverfaglega samvinnu þessara stofnana og Háskólafélagsins og umsókn þar að lútandi í tengslum við Markáætlun Rannís á svið vísinda og tækni 2009-2015. Fulltrúar frá Jarðskjálftamiðstöð Suðurlands eru einnig aðilar að þessu verkefni en voru fjarverandi vegna anna á öðrum vettvangi.
Steingerður gerði stutta grein fyrir starfi stjórnar Háskólafélagsins fram að þessu. því næst kynnti Sveinn Aðalsteinsson hugmyndir stjórnar um rannsóknarklasa. Fyrir fundinum lágu drög að hugmyndum að sunnlenskum rannsóknarklasa unnin af Steingerði, Sveini og Rögnvaldi. Þau drög fylgja fundargerðinni merkt 7:1
Fundarmenn lýstu einróma ánægju með hugmyndina og vilja til að vinna henni brautargengi og þar með að undirbúa umsókn til Rannís. Í umræðu um viðfangsefnið kom fram áhersla á mikilvægi þess að byggja á því sem fyrir er, nýta þá þekkingu sem er til staðar og það starf sem þegar hefur verið unnið. Jafnframt kom fram vilji til að verkefnið yrði þannig úr garði gert að fleiri aðilar kæmu að því.
Erlingur dreifði yfirliti um yfirstandandi rannsóknarverkefni á vegum Rannsóknarstofu í íþrótta og heilsufræðum, sem fylgir með fundargerð merkt 7:2
Fulltrúar frá hverri stofnun og Háskólafélaginu munu bera hita og þunga af vinnu við drög að áðurnefndri umsókn og leggja þau fyrir næsta fund stjórnar. (Ágúst, Erlingur, Ólafía, Ragnar, Sveinn A og Sveinn R) Fulltrúar stofnananna viku af fundi kl 16: 00
Sveinn Aðalsteinsson tekur að sér að hafa forgöngu í og að samræma vinnu við umsóknina, það er ljóst að þetta er talsverð vinna. Sveinn víkur af fundi. Samþykkt að fela Steingerði að gera við hann samning um greiðslu, frá Háskólafélaginu, vegna allt að 15 klst. vinnu við gerð umsóknar. Sveinn kemur aftur til fundar.
3. frh önnur mál. Rögnvaldur lagði áherslu á að sótt verði um fjárveitingu til Menntamálaráðuneytis til þekkingarseturs á Suðurlandi líkt og komið hefur verið upp í öðrum landshlutum. Mikilvægt að við ráðstöfun þess fjár verði tekið mið af aðstæðum í fjórðungnum og því þverfaglega og víðfeðma starfi sem er unnið og í bígerð er m.a. á vegum Háskólafélagsins.
Rætt um möguleika á því að Háskólafélagið standi að átaksverkefni í eystri hluta fjórðungsins með því að standa að tímabundinni ráðningu starfsmanns á þeim svæðum sem ekki hefur verið uppbygging í háskólatengdri starfsemi.
Næsti fundur ákveðinn 7. maí nk. kl 15:00 á Selfossi
Fundi slitið kl: 16:30.