stjórnar Háskólafélags Suðurlands haldinn í Fjölheimum á Selfossi fimmtudaginn 10. janúar 2019 kl. 15. Mætt voru Sveinn Aðalsteinsson, Rögnvaldur Ólafsson, Dagný Magnúsdóttir, Kristín Hermannsdóttir og Þórarinn Ingólfsson. Helga Þorbergsdóttir og Sigurður Þór Sigurðsson boðuðu forföll. Auk þess sat fundinn Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri og ritaði hann fundargerð. Þá sátu fundinn starfsmennirnir Ingunn Jónsdóttir og Hrafnkell Guðnason.
Sveinn Aðalsteinsson formaður setti fundinn og gengið var til fyrirliggjandi dagskrár.
- Fundargerð fundar stjórnar staðfest með undirritun.
- Samningurinn við SASS
Sigurður gerði grein fyrir bráðabirgðayfirliti um áramótastöðuna gagnvart samningi Háskólafélagsins við SASS. Málið rætt, m.a. um álitamál varðandi verðlagsuppfærslu milli ára og stöðu viðbótarsamningsins sem gerður hefur verið undanfarin tvö ár, eitt ár í senn. Framkvæmdastjóra, og eftir atvikum formanni stjórnar, falið að fylgja málinu eftir við SASS. Húsnæðismál
Á síðasta ári lauk samtímakennslu Háskólans á Akureyri fyrir staðar- og fjarnema en undanfarin misseri hafði hún verið bundin við stofu 202 í Fjölheimum. Rætt hefur verið um þann möguleika að koma þar upp frumkvöðlasetri, hugsanlega í samvinnu við Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Samþykkt hefur verið áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands um námskeiðaröð fyrir frumkvöðla en ekki liggur fyrir fjármögnun frá SASS varðandi stofnun og rekstur frumkvöðlaseturs. Stjórnin felur starfsmönnum félagsins að greina nánar markhópa fyrir slíkt setur og rekstrarforsendur þess og taka í framhaldinu afstöðu til þess hvort félagið fjárfesti í búnaði fyrir slíkt setur. Komi til þess er gert ráð fyrir að farið verði með tekjur af því með sama hætti og við rekstur lesstofunnar í Fjölheimum, þ.e. að þær renni til Háskólafélagsins.
- Fjár- og starfsmannamál
Sigurður gerði annars vegar grein fyrir áframhaldandi hallarekstri félagsins og hins vegar undirmönnun starfseminnar. Eftir að samingurinn við SASS kom til sögunnar hefur umtalsverður tími framkvæmdastjóra farið í prófaþjónustu, auk vinnu við rekstur Fjölheima. Hann viðraði hugmynd um að ráða þjónustufulltrúa til starfa en ljóst er að við núverandi aðstæður mundi það leiða til enn frekari hallarekstrar. Ákveðið að ræða málið frekar eftir að ljóst verður hvaða tekjur félagið fær af samningi við SASS á árinu og hvort aukin framlög fáist frá ríkinu. Jafnframt viðraði framkvæmdastjóri þann möguleika að lækka starfshlutfall sitt til að draga úr launakostnaði félagsins.
- Stefnumörkun félagsins
Fyrirliggjandi drög sem unnin voru á síðastliðnu ári voru samþykkt með minni háttar breytingum, og starfsmönnum félagsins falið að gera hana sýnilega á heimasíðu félagsins. Jafnframt komu fram þau sjónarmið að mikilvægt væri að stefnan væri lifandi plagg sem nýtt verði í starfi félagins og endurnýjuð eftir þörfum.
- Önnur mál
Stefnt er að næsta fundi þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um afkomu síðasta árs og fjárveitingar 2019, m.a. á grundvelli væntanlegrar auglýsingar ráðuneytisins um verkefni þekkingarsetra. Hugsanlega gæti slíkur fundur orðið í lok febrúar eða fyrri hluta mars.
Kristín stakk upp á að stjórnin fundaði á Höfn við tækifæri.
Fleira ekki og fundi slitið kl. 16:45