Jarðvangurinn Katla (Katla Geopark) fékk mikilvæga viðurkenningu á dögunum en þá fékk hann sérstaka evrópska viðurkenningu fyrir framúrskandi klasasamstarf. Um er að ræða svokallað Bronsmerki fyrir klasastjórnun (Cluster Management Excellence) en það var veitt að undangenginni úttekt á vegum European Secretariat for Cluster Analysis í samstarfi við Rannís. Þetta er önnur alþjóðlega vottunin sem jarðvangurinn hefur fengið, sú fyrri fólst í aðild að Global Geoparks Network og European Goeparks Network 2011.
Steingerður Hreinsdóttir rekstrarstjóri jarðvangsins tók á móti viðurkenningunni á ráðstefnu 2. október 2013. Daginn eftir heimsótti hópur erlendra klasastjóra, aðallega frá Póllandi og Tyrklandi, Háskólafélag Suðurlands í Fjölheimum, en Háskólafélagið stóð fyrir stofnun jarðvangsins og hefur séð um rekstur hans frá upphafi.