Fréttir

Ályktun stjórnar Háskólafélagsins

Stjórn Háskólafélagsins bókaði eftirfarandi á fundi sínum á Kirkjubæjarklaustri 12. september sl.

Fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands -Þekkingarnets á Suðurlandi, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 12. september 2014, lýsir furðu sinni á fjárframlögum til félagsins og Fræðslunetsins í frumvarpi til fjárlaga 2015. Fyrir liggur að Sveitarfélagið Hornafjörður færðist af starfssvæði Austurbrúar um síðustu áramót til félaganna tveggja en þessa sér ekki stað í fjárveitingum til stofnananna skv. fjárlagafrumvarpinu. Með þessu virðist staðfestast sá grunur að málefnalegar ástæður eru ekki fyrir hendi við skiptingu opinberra fjármuna milli einstakra símenntunarstöðva og þekkingarneta.

Stjórnin beinir því til Ríkisendurskoðunar að hún taki málið til skoðunar.  Að gefnu tilefni skal það tekið fram að skipting fastra fjárveitinga til símenntunarmiðstöðvanna virðist ekki hafa verið til skoðunar í nýlegri aðkeyptri úttekt ráðuneytisins á málefnum framhaldsfræðslunnar.