Skyrslur

Ársreikningur 2015 og aðalfundur 2016

8. aðalfundur Háskólafélags Suðurlands ehf var haldinn miðvikudaginn 1. júní 2016 kl. 14 í Fjölheimum

Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar félagsins setti fund og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 74,2%  hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur. Áður en gengið var til formlegra aðalfundarstarfa flutti Runólfur Ágústsson erindi (kynning-selfoss-01-06-16) um störf verkernastjórnar sem er að kanna möguleika á því að koma á svokölluðu fagháskólastigi á Íslandi. Stofnað var til þessa verkefnis með ákvæðum í síðustu kjarasamningum á almennum markaði. Verkefnastjórnin mun skila tillögum sínum í byrjun september og er vonast til þessa að nám skv. nýju skipulagi hefjist á næsta ári.

Formaður gerði tillögu um Sigurð Þór Sigurðsson sem fundarstjóra á aðalfundinum og að Hrafnkell Guðnason ritaði fundargerð. Samþykkt samhljóða og tók Sigurður Þór við stjórn fundarins og gengið var til áður boðaðrar dagskrár.

  1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði skyrsla-stjornar-og-framkvaemdastjora-hfsu-til-adalfundar-2016).
  2. Ársreikningur 2015, ásamt skýrslu endurskoðanda. Auðunn Guðjónsson frá KPMG Endurskoðun fór yfir niðurstöður ársreikningsins. Halli ársins nam um 14,9 millj.kr. en handbært fé í lok ársins var um 40,4 millj.kr.

Í umræðum um skýrslu og ársreikning kom fram fyrirspurn um einingar á námsbrautum félagsins, þ.e. Matvælabrú og Ferðamálabrú. Framkvæmdastjóri útskýrði hvers vegna svokallaðar ECVET einingar væru notaðar í þessu sambandi. Ársreikningurinn var borinn upp til afgreiðslu og samþykktur samhljóða.

  1. Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna taps er ekki um að ræða arðgreiðslur eða framlög í varasjóð.
  2. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu. Samþykkt tillaga um óbreytt fyrirkomulag, þ.e. að miða við reglur SASS, þ.e. 3% þingfararkaups fyrir hvern fund en 4,5 % til formanns.
  3. Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum
  4. Kjör stjórnar og endurskoðanda. Allir núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en stjórn félagsins skipa þau Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Þá var gerð tillaga um óbreytta skipan varastjórnar: Eyþór Ólafsson, Gylfi Þorkelsson, Kristín Hreinsdóttir, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valtýr Valtýsson og Þorvaldur Guðmundsson. Þessar tillögur voru báðar samþykktar samhljóða. Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðun Guðjónsson hjá KPMG áfram sem endurskoðanda félagsins.
  5. Önnur mál. Ásgeir Magnússon þakkaði félaginu fyrir vel unnin störf og beindi því til fundarmanna til að lesa vel „barlóminn“ í skýrslu framkvæmdastjóra og hvatti sveitarstjórnarmenn til dáða við að ná sambærilegu framlagi til starfseminnar og aðrir landshlutar fá.

Sveinn Aðalsteinsson gerði að umtalsefni sívaxandi samstarf félagsins við Fræðslunetið og leitaði eftir viðhorfum eigenda Háskólafélagsins til áframhaldandi skoðunar á möguleikum þess að sameina krafta félaganna í nýju sameiginlegu félagi. Fram kom að almennur stuðningur er meðal eigenda félagsins við að kanna þessa möguleika nánar.

Valtýr Valtýsson þakkaði fyrir störf félagsins og benti á að kæmi til sameiningar félaganna þyrfti að gæta þess að hún leiddi ekki til þess að dregið úr fjárframlögum, þvert á móti þyrfti að nota tækifærið og styrkja fjárhagslegar forsendur starfseminnar.

Ísólfur Gylfi þakkaði framkvæmdastjóra fyrir mikla og góða vinnu við jarðvangsverkefnið (Katla Geopark).

Á fundinn mættu fulltrúar Bláskógabyggðar,  Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skaftárhrepps (í Skype sambandi), Árborgar, Hornafjarðar og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Dagný Magnúsdóttir,Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig starfsmennirnir Hrafnkell Guðnason og Sigurður Sigursveinsson.