Fréttir, Skyrslur

Ársreikningur 2017 og aðalfundur 2018

Fundargerð 10. aðalfundar Háskólafélags Suðurlands ehf miðvikudaginn 12. júní 2018 kl. 13 í Fjölheimum á Selfossi

Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar félagsins setti fund og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 66,7%  hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur.

Formaður gerði tillögu um Sigurð Þór Sigurðsson sem fundarstjóra á aðalfundinum og að Ingunn Jónsdóttir ritaði fundargerð. Samþykkt samhljóða og tók  Sigurður Þór við stjórn fundarins og gengið var til áður boðaðrar dagskrár.

  1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði og þakkaði stjórnarmönnum, starfsfólki og eigendum fyrir einstaklega gott samstarf.
  2. Ársreikningur 2017, ásamt skýrslu endurskoðanda. Auðunn Guðjónsson frá KPMG Endurskoðun fór yfir niðurstöður ársreikningsins. Hagnaður ársins nam um 8,6 millj.kr. en handbært fé í lok ársins var um 39,1 millj.kr.

Ísólfur Gylfi Pálmason kom á framfæri þökkum fyrir þá vinnu sem framkvæmdastjóri hefði unnið fyrir Kötlu Geopark og sagði hana hafa skipt jarðvanginn miklu máli. Sveinn Aðalsteinsson vakti athygli eigenda félagsins á að athuga þyrfti nánar möguleika á sameiningu félaganna tveggja; Háskólafélagsins og Fræðslunetsins. Í sameiningu lægju miklir samlegðarmöguleikar. Sigurður Þór tók undir þau sjónarmið.

Ársreikningurinn og skýrslan voru borin upp til afgreiðslu og samþykkt samhljóða.

  1. Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna taps fyrri ára eru arðgreiðslur og framlög í varasjóð óheimilar.
  2. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu. Samþykkt tillaga sem byggir á samþykkt SASS 3. febrúar 2017 þ.e. 2,1% þingfararkaups fyrir hvern fund en 3,2 % til formanns.
  3. Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum
  4. Kjör stjórnar og endurskoðanda. Sex núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, þ.e. þau Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Olga Lísa Garðarsdóttir verður í námsleyfi næsta vetur. Gerð er tillaga um óbreytta stjórn að öðru leyti en því að Þórarinn Ingólfsson komi inn í stjórnina í stað Olgu Lísu. Þá var gerð tillaga um óbreytta skipan varastjórnar: Eyþór Ólafsson, Gylfi Þorkelsson, Kristín Hreinsdóttir, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valtýr Valtýsson og Þorvaldur Guðmundsson. Þessar tillögur voru báðar samþykktar samhljóða en fram kom að huga þyrfti að endurnýjun á skipan varastjórnar. Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðun Guðjónsson hjá KPMG áfram sem endurskoðanda félagsins.
  5. Önnur mál. Sveinn Aðalsteinsson ítrekaði mikilvægi þess að eigendur huguðu nánar að sameiningarmálum enda væri að nokkru leyti um sömu eigendur að ræða að félögunum tveimur. Að svo búnu sleit Sveinn fundi kl. 13:56. – Í beinu framhaldi af fundinum kynntu Róbert Haraldsson kennslustjóri Háskóla Íslands og Bryndís Garðarsdóttir formaður námsbrautar í leikskólakennarafræði fyrirhugað námsframboð fyrir leiðbeinendur í sunnlenskum leikskólum næsta vetur. Fulltrúar eigenda (sveitarfélaganna) lýstu yfir mikilli ánægju með þessar fyrirætlanir.

Á fundinn mættu fulltrúar Bláskógabyggðar,  Grímsnes- og Grafningshrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Skaftárhrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Hornafjarðar (í fjarfundi) og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir (í fjarfundi), Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig starfsmennirnir Ingunn Jónsdóttir, Magnús St Magnússon og Sigurður Sigursveinsson.