Fundargerð 13. aðalfundar Háskólafélags Suðurlands ehf miðvikudaginn 19. maí 2021 kl. 13 í fjarfundi.
Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar setti fundinn og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 71,2% hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur.
Sveinn gerði tillögu um Sigurð Þór Sigurðsson sem fundarstjóra á aðalfundinum og að Ingunn Jónsdóttir ritaði fundargerð. Samþykkt samhljóða og gengið var til dagskrár.
1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði. Fulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar spurði út í málefni nýsköpunar í starfi félagsins og möguleg áhrif boðaðs skrifstofuhótels í núverandi húsnæði Landsbankans á rekstur Fjölheima. Framkvæmdastjóri svaraði því til að samstarfið um Fablab smiðjuna í FSu væri til vitnis um áherslur félagsins á nýsköpun og hugmyndir væru uppi um frumkvöðlasetur í Fjölheimum. Engar viðræður hafa átt sér stað við félagið um starfsemina í Landsbankahúsinu en það kynnu að skapast samlegðaráhrif milli nálægra þekkingarsamfélaga. Stækkunarmöguleikar Fjölheima fælust í að sveitarfélagið gerði upp um 100 fermetra rými á efri hæð elsta hlutans, auk mögulegrar nýtingar á gamla leikfimisalnum. Við vígslu Fjölheima á sínum tíma kom fram vilji sveitarfélagsins að starfsemi Fjölheima hefði forgang að þessu rými ef þörf krefði. Leigusamningur um Fjölheima rennur út í lok næsta árs og kom fram að æskilegt væri að sveitarfélagið og Háskólafélagið tækju samtal um framtíðarsýn Fjölheima. Fulltrúi Rangárþings ytra spurðist fyrir um árangur af markmiðum félagsins um hækkun menntastigs á svæðinu. Framkvæmdastjóri svaraði því til að á vettvangi áhersluverkefnis Sóknaráætlunar Suðurlands, Menntahvöt, væri m.a. unnið að gagnasöfnun í því sambandi, en uppbygging nemendaaðstöðu á Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri væri til vitnis um að unnið væri að þessum markmiðum í samvinnu við sveitarfélögin.
2. Ársreikningur 2020, ásamt skýrslu endurskoðanda. Framkvæmdastjóri fór yfir niðurstöður ársreikningsins. Rekstrartap ársins nam um 1,6 mkr og skýrist það m.a. af 2,4 mkr lækkun tekna af prófgjöldum og aðgangskortum vegna heimsfaraldursins og um 1 mkr auknum kostnaði vegna aukinna ræstinga og sóttvarna. Eigið fé félagsins nam 40,1 mkr í árslok 2020.
Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða.
- Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna rekstrartapsins koma arðgreiðslur ekki til álita.
- Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra. Samþykkt tillaga sem byggir á samþykkt aðalfundar SASS 29.- 30. október 2020 þ.e. 3% þingfararkaups fyrir hvern fund en 4 % til formanns.
- Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum.
- Kjör stjórnar og endurskoðanda. Dagný Magnúsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Gerð er tillaga um að Sigurður Markússon forstöðumaður nýsköpunardeildar Landsvirkjunar komi í stað Dagnýar í stjórnina, en aðrir núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetur þ.e. þau Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Þá var gerð tillaga um óbreytta varastjórn: Eyþór Ólafsson, Örnu Ír Gunnarsdóttur, Ágúst Sigurðsson, Einar Bjarnason, Evu Björk Harðardóttur, Eyþór Ólafsson, Helga Kjartansson og Lilju Einarsdóttur. Þessar tillögur voru báðar samþykktar samhljóða. Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðun Guðjónsson hjá KPMG áfram sem endurskoðanda félagsins.
- Önnur mál. Sigurður framkvæmdastjóri tilkynnti að hann hefði sagt starfi sínu lausu hjá félaginu og þakkaði ánægjulegt samstarf við stjórn, starfsmenn og eigendur á undanförnum árum en hann hóf störf hjá félaginu 1. apríl 2009. Fulltrúi Rangárþings eystra þakkaði Sigurði fyrir samstarfið, Sveinn formaður tók undir þakkir og sleit síðan fundi kl.14:00.
Á aðalfundinn mættu fulltrúar, Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skaftárhrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson auk starfsmannanna Guðlaugar Svansdóttur, Hrafnkels Guðnasonar, Ingibjargar Ástu Rúnarsdóttur, Ingunnar Jónsdóttur, Magnúsar St Magnúsonar og Sigurðar Sigursveinssonar.