Fundargerð 14. aðalfundar Háskólafélags Suðurlands ehf mánudaginn 25. apríl 2022 kl. 15:00 í Fjölheimum Selfossi og í fjarfundi.
Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar setti fundinn og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 83,85% hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur.
Sveinn gerði tillögu um Sigurð Þór Sigurðsson sem fundarstjóra og að Brynja Hjálmtýsdóttir riti fundargerð. Samþykkt samhljóða og gengið til dagskrár.
1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði. Framkvæmdastjóraskipti urðu á árinu þegar Sigurður Sigursveinsson lét af störfum en hann hafði gegnt framkvæmdastjórastöðunni frá upphafi. Ingunn þakkaði Sigurði fyrir hans störf í þágu félagsins enda hafi hann mótað það meira en nokkur annar. Stjórnarfundir voru 9 á síðasta ári. Ingunn fór yfir annað það sem bar hæst á starfsárinu.
2. Ársreikningur 2021, ásamt skýrslu endurskoðanda. Auðunn Guðjónsson endurskoðandi félagsins fór yfir niðurstöður ársreiknings. Rekstrartap ársins nam um 6 m.kr. sem skýrist m.a. af framkvæmdastjóra skiptum, hækkun á áfallinni lífeyrisskuldbindingu fráfarandi framkvæmdastjóra, veikindum starfsmanna og afskriftum lausafjármuna.
Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða.
3. Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna rekstrartapsins koma arðgreiðslur ekki til álita og leggur stjórn til að tapi verði mætt með því að ganga á eigið fé félagsins. Samþykkt samhljóða.
4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra. Samþykkt að halda þóknun óbreyttri og er þar fylgt viðmiðum SASS um laun vegna stjórnarsetu. Samþykkt samhljóða.
5. Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum.
6. Kjör stjórnar og endurskoðanda. Fimm núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, þ.e. þau Sveinn Aðalsteinsson, Helga Þorbergsdóttir, Sigurður Þór Sigurðsson, Sigurður H. Markússon, Olga Lísa Garðarsdóttir. Kristín Hermannsdóttir sem hefur verið í stjórn síðan 2014 og Rögnvaldur Ólafsson sem hefur verið stjórnarmaður frá upphafi, gefa ekki kost á sér áfram og þakkar Háskólafélagið þeim innilega fyrir sín góðu störf. Stjórnin leggur til að í þeirra stað komi inn í stjórn þær Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs og Sæunn Stefánsdóttir forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands. Þá var gerð tillaga um óbreytta varastjórn: Eyþór Ólafsson, Örnu Íri Gunnarsdóttur, Ágúst Sigurðsson, Einar Bjarnason, Evu Björk Harðardóttur, Helga Kjartansson og Lilju Einarsdóttur. Tillaga var gerð um að Sandra Brá Jóhannsdóttir komi í stað Evu Bjarkar Harðardóttur. Þessar tillögur voru samþykktar samhljóða.
Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðun Guðjónsson hjá KPMG áfram sem endurskoðanda
félagsins.
7. Önnur mál. Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar þakkaði Rögnvaldi og Kristínu vel unnin störf og góða samvinnu á stjórnartíma þeirra. Hann bauð einnig velkomnar til starfa þær Hugrúnu Hörpu og Sæunni og bauð þeim að kynna sig sem þær gerðu. Sveinn þakkaði fundargestum fundarsetuna.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 15:33.
Á aðalfundinn mættu fulltrúar Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Hveragerðisbæjar, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skaftárhrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hornafjarðar, Sveitarfélagsins Árborgar og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Sveinn Aðalsteinsson, Helga Þorbergsdóttir, Sigurður Þór Sigurðsson, Sigurður H. Markússon, Olga Lísa Garðarsdóttir, Kristín Hermannsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson. Auk þess starfsmenn Háskólafélagsins Ingunn Jónsdóttir, Guðlaug Ósk Svansdóttir, Brynja Hjálmtýsdóttir og Ingibjörg Ásta Rúnarsdóttir. Aðrir gestir Hugrún Harpa Reynisdóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Auðunn Guðjónsson.