Fundargerð 16. aðalfundar Háskólafélags Suðurlands ehf, þriðjudaginn 23. apríl 2024 kl.14:00 í Fjölheimum á Selfossi og í fjarfundi.
Sveinn Aðalsteinson setti fundinn og gerði grein fyrir lögmæti fundarins en fulltrúar 89,2% hlutafjár voru mættir á fundinn sem var þar af leiðandi löglegur.
Sveinn gerði tillögu um að Sigurður Þór Sigurðsson í hlutverk fundarstjóra og að Helga Kristín Sæbjörnsdóttir riti fundargerð. Samþykkt samhljóða og gengið til dagskrár.
1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina 2023. Ingunn flutti skýrslu framkvæmdastjóra (sjá hlekk) og í framhaldi flutti Sveinn Aðalsteinsson formaður skýrslu stjórnar. Á síðasta ársfundi var sagt frá því að stjórn Háskólafélagsins hefði sent stjórn Fræðslunets Suðurlands erindi um mögulega sameiningu félaganna. Stjórnir félaganna hafa átt fund og verið er að skoða framhaldið. Eins sagði Sveinn frá undirbúningi verkefnis sem miðar að því að skoða aðkomu félagsins á að verða einskonar Háskólaútibú en svipuð útibú eru rekin m.a. í Finnlandi og Skotlandi.
2. Ársreikningur Háskólafélag Suðurlands 2023 ásamt skýrslu endurskoðanda. Lilja Dögg Karlsdóttir endurskoðandi fór yfir niðurstöður ársreikning. Félagið uppfyllir skilyrði um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sérfræðiþjónustu, líkt og sveitarfélög, og fékk því rúmlega 4 milljónir króna endurgreiðslu vegna fyrri ára, en nánar má lesa um stöðuna í ársreikningum. Ársreikningur samþykktur samhljóða.
3. Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Samþykkt um að ekki verði greiddur út arður. Samþykkt samhljóða.
4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu. Tillaga um óbreytt fyrirkomulag: hlutur af þingfararkaupi, þ.e. 3% til almennra stjórnarmanna og 4% til stjórnarformanns sem fylgir viðmiðum SASS um laun vegna stjórnarsetu. Samþykkt samhljóða.
5. Breytingar á samþykktum. Stjórn leggur til breytingar á samþykktum félagsins og að bætt verði við grein 2 HLUTAFÉ FÉLAGSINS – grein 2.7 “Félaginu er óheimilt að greiða út arð til hluthafa heldur verði öllum umfram hagnaði varið til verkefna sem teljast í þágu almannaheilla”. Auk þess var lagt til að orðalag í lið 3.5.3 / grein 3 STJÓRNSKIPULAG OG HLUTHAFAFUNDUR verði: “tekin skal ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð (tekið út) og framlög í varasjóð”. Tillaga að breytingum á samþykktum skal tilkynna í fundarboði en vegna aðstæðna náðist það ekki. Lilja Dögg Karlsdóttir endurskoðandi fór yfir ástæður þess að tillagan er lögð fram og útskýrir að breytingin sé gerð svo það sé skýrt að ef hagnaður er af rekstri félagsins sé hann nýttur í verkefni félagsins. Opnað fyrir umræður en tillagan að endingu samþykkt samhljóða.
6. Kjör stjórnar og endurskoðanda. Aðalstjórn skipa Sveinn Aðalsteinsson formaður, Helga Þorbergsdóttir ritari, Hugrún Harpa Reynisdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Sigurður Markússon, Sigurður Þór Sigurðsson og Sæunn Stefánsdóttir. Allir gefa kost á sér til áframhaldandi setu og sú tillaga samþykkt samhljóða. Tillaga um varamenn sitji áfram óbreytt frá fyrra starfsári er jafnframt samþykkt. Eftirtaldir skipa varastjórn; Eyþór Ólafsson, Arna Ír Gunnarsdóttir, Ágúst Sigurðsson, Einar Bjarnason, Sandra Brá Jóhannsdóttir, Helgi Kjartansson og Lilja Einarsdóttir.
Einnig var samþykkt samhljóða að kjósa áfram Lilju Dögg Karlsdóttur hjá KPMG sem endurskoðanda félagsins.
7. Önnur mál . Umræður um reksturinn og hvernig á að ráðstafa fénu sem situr eftir. Rifjað upp að eigendur leggja ekki fram árleg framlög. Stofnfé var lagt fram 2007 sem nam 75 milljónum. Gengið hefur verið í þann sjóð frá stofnun. Nú nálgast félagið nafnvirði þessa fjár sem er gott en ólíklegt er að svona góður árangur náist aftur. Mannabreytingar og ófyrirsjáanleiki í rekstri gerðu það að verkum að stigið var varlega til jarðar hvað varðar ráðningar starfsmanna á síðasta ári sem skýrir hagnaðinn en ekki gert ráð fyrir áframhaldandi hagnaði. Viðmiðið er að félagið sé rekið réttu megin við núllið. Engin önnur mál lögð fyrir.
Í framhaldi kynni Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnastjóri félagsins, Atvinnubrúna sem er nýtt verkefni á vegum félagins sem jafnframt hlaut styrk úr áhersluverkefnasjóði SASS.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 14:51
Fyrir hönd eigenda mættu fulltrúar Hveragerðis, Árborgar, Ásahrepps, Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Rangárþings Ytra, Skaftárhrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Ölfus, Hafnar í Hornafirði og SASS.
Auk þess sátu fundinn fyrir hönd stjórnar, Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar, Helga Þorbergsdóttir, Sigurður Þór Sigurðsson settur fundarstjóri, Sigurður Markússon og Hugrún Harpa Reynisdóttir. Arnar Leó Guðnason og Lilja Dögg Karlsdóttir mættu fyrir hönd KPMG og fyrir hönd félagsins mættu Magnús St. Magnússon forstöðumaður FabLab, Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri HfSu og Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnastjóri sem janframt ritaði fundargerð.