Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar félagsins setti fund og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 94% hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur. Áður en gengið var til formlegra aðalfundarstarfa flutti þau Ingunn Jónsdóttir verkefnastjóri og Maria Isabel Romero Ruiz erindi. Ingunn fjallaði um Erasmus+ verkefni Háskólafélagsins um nám fyrir ferðaþjónustuna en Maria um starfsþjálfun í samstarfsfyrirtækjum háskólana í Malaga en sá háskóli er samstarfsaðili Háskólafélagsins í verkefninu auk University of the Highlands and Islands í Skotlandi.
Formaður gerði tillögu um Kristínu Hermannsdóttur sem fundarstjóra á aðalfundinum og að Hrafnkell Guðnason ritaði fundargerð. Samþykkt samhljóða og tók Kristín við stjórn fundarins og gengið var til áður boðaðrar dagskrár.
- Starfskyrsla_2016_HfSu stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði.
- Arsreikningur_HfSu-2016 ásamt skýrslu endurskoðanda. Auðunn Guðjónsson frá KPMG Endurskoðun fór yfir niðurstöður ársreikningsins. Halli ársins nam um 12,8 millj.kr. en handbært fé í lok ársins var um 32,3 millj.kr.
Gunnar Þorgeirsson þakkaði fyrir góða skýrslu og vakti máls á því hvert stefndi með Háskólafélagið, að óbreyttu yrði eigið fé uppurið innan nokkurra ára, þyrftu þá sveitarfélögin að leggja félaginu til fé? Félagið hefði mikilvægu hlutverki að gegna, sbr. fund með Háskóla Íslands fyrr um daginn. Samstarf SASS og HfSu væri farsælt og mikilvægt fyrir báða aðila og nauðsynlegt að velta fyrir sér framtíð HfSu.
Ársreikningurinn og skýrslan voru borin upp til afgreiðslu og samþykkt samhljóða.
- Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna taps er ekki um að ræða arðgreiðslur eða framlög í varasjóð.
- Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu. Samþykkt tillaga sem byggir á samþykkt SASS 3. febrúar 2017 þ.e. 2,1% þingfararkaups fyrir hvern fund en 3,2 % til formanns.
- Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum
- Kjör stjórnar og endurskoðanda. Allir núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en stjórn félagsins skipa þau Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Þá var gerð tillaga um óbreytta skipan varastjórnar: Eyþór Ólafsson, Gylfi Þorkelsson, Kristín Hreinsdóttir, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valtýr Valtýsson og Þorvaldur Guðmundsson. Þessar tillögur voru báðar samþykktar samhljóða. Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðun Guðjónsson hjá KPMG áfram sem endurskoðanda félagsins.
- Önnur mál. Sigurður framkvæmdastjóri þakkaði stjórn og eigendum félagsins fyrir samstarfið undanfarin ár og taldi rétt að greina þessum aðilum frá því að hann væri að velta því fyrir sér að láta af störfum innan tíðar eða minnka starfshlutfall en hefði þó ekkert ákveðið í því sambandi. – Fundarstjóri sleit fundi kl. 13:55.
Á fundinn mættu fulltrúar Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Hveragerðisbæjar, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfus, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Dagný Magnúsdóttir,Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig starfsmennirnir Hrafnkell Guðnason og Sigurður Sigursveinsson.