Á stjórnarfundi Háskólafélags Suðurlands 8. desember kom fram mikil óánægja með lág framlög í fjárlagafrumvarpinu til þekkingarstarfa á Suðurlandi. Eftifarandi áskorun var samþýkkt á fundinum og send öllum þingmönnum í fjárlaganefnd og öllum þingmönnum Suðurkjördæmis:
Áskorun til fjárlaganefndar
Stjórnarfundur Háskólafélags Suðurlands, haldinn í Skálholti 8. desember 2010, beinir þeim eindregnu tilmælum til fjárlaganefndar Alþingis að hún endurskoði nú þegar framlög til þekkingarstarfa á Suðurlandi í fjárlagafrumvarpi 2011.
Sérstaklega er vakin athygli á mikilli lækkun til Kirkjubæjarstofu (2 mkr í stað 5 mkr) og áfram býr Fræðasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi við skertan hlut, borið saman við önnur fræðasetur Háskólans á landsbyggðinni (2 mkr í stað 5 mkr). Til undirbúnings Kötluseturs var veitt 2,5 mkr 2009, 1,1 mkr 2010, og skv. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi 2011 einungis 700 þkr. Nú er búið að stofna Kötlusetur formlega en í stað þess að styðja við þá starfsemi er hún nú skorin við trog og setur það áform um starfsemina í fullkomið uppnám.
Á sama tíma hafa sveitarfélögin á eystri hluta svæðisins (Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra) og Háskólafélag Suðurlands lagt umtalsverða fjármuni í stofnun jarðvangs (Geopark) á svæðinu, sem er sameiginleg stefnumótun fyrir sveitarfélögin í ferðamálum. Þess er vænst að Geopark skapi auknar gjaldeyristekjur með markvissari markaðssetningu þessa svæðis sem varð fyrir hvað mestum skakkaföllum í eldgosunum í vor en býður jafnframt upp á stórkostleg tækifæri.
Ríkisvaldið ætti að sjá sér hag í að styðja við bakið á þessu framtaki til sjálfbærrar þróunar svæðisins í stað þess að draga verulega úr fjárveitingum.
Kirkjubæjarstofa og Kötlusetur eru stofnaðilar Katla Geopark auk sveitarfélaganna þriggja, Skógasafns, Háskólafélags Suðurlands og Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands. Umsókn um aðild Katla Geopark að alþjóðlegu samstarfsneti jarðvanga var send í lok nóvember, studd ítarlegum gögnum og stuðningsyfirlýsingum Ferðamálastofu, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Umhverfisstofnunar, íslensku UNESCO nefndarinnar og heimsminjanefndar Íslands, sjá www.katlageopark.is
Auk leiðréttinga á framlögum til ofangreindra aðila er farið fram á að Katla Jarðvangur fái sem svarar einu stöðugildi (8 mkr) til að hrinda þessu verkefni í framkvæmd.