Fréttir

Átaksverkefni í Uppsveitunum

Fimmtudaginn 18. mars 2010 hélt stjórn Háskólafélags Suðurlands fund á Hótel Flúðum með oddvitum og sveitarstjórum sveitarfélaganna fjögurra í Uppsveitum Árnessýslu, þ.e. Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Auk þess sátu fundinn Guðjón Þorkelsson sviðsstjóri hjá Matís og Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveitanna. 

 

Tilefni fundarins var að ræða hugsanlegt átaksverkefni í Uppsveitunum. Stefnt er að þátttöku sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana með það að markmiði að efla nýsköpun og atvinnulíf og fjölga þekkingarstörfum. Einkum hefur verið horft til grænmetisins, en nú þegar eru tvö verkefni í gangi sem njóta styrks úr Vaxtarsamningi Suðurlands, þ.e. lífrænn klasi í Laugarási og grænmetissmiðja á Flúðum. Gert er ráð fyrir að fyrirhugað átaksverkefni byggi m.a. á grunni þessara verkefna. 

 

Hugmyndir þessar fengu góðar undirtektir fundarmanna og er stefnt að öðrum fundi fljótlega með fulltrúum fyrirtækja og stofnana á svæðinu.