Fyrsta átaksverkefnið sem HfSu beitii sér fyrir heitir Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðarársandi. Verkefnið miðaði að því að undirbúa uppbyggingu háskólatengdrar starfsemi í Skógum og Vík og að renna fleiri stoðum undir starfsemi Kirkjubæjarstofu. Gert var ráð fyrir að við lok verkefnisins lægju fyrir rökstuddar áætlanir um rannsókna- og þróunarstarfsemi á sviðum þjóðfræða, eldvirkni og nýrra lífrænna orkugjafa sem gætu nýst á innlendum sem erlendum vettvangi. Tilgangurinn var að auka fjölbreytni í atvinnulífi á eystri hluta Suðurlands, styrkja grunnrannsóknir, efla ferðaþjónustu tengda vísindum og menningu, auka möguleika og fjölbreytni til menntunar á grunn- og framhaldsstigi háskólanáms og miðla upplýsingum til erlendra sem innlendra samstarfsaðila.
Með því að leggja áherslu á þessi ólíku svið sem eru einkennandi styrkleikar svæðisins myndast sterkt þverfaglegt rannsóknarnet sem býður upp á atvinnu- og rannsóknartækifæri á svæðinu. Með þekkingarstarfssemi af þessu tagi skapast grundvöllur fyrir fjölbreyttara atvinnulífi og hærra menntunarstigi sem getur haft jákvæð áhrif á grunngerð samfélagsins.
Svæðið á milli Markarfljóts og Skeiðarársands á undir höggi að sækja en þar hefur mikil fólksfækkun verið undanfarin ár. Markmið verkefnisins var að búa til tækifæri og skapa vettvang fyrir menntað fólk til að vinna í héraði. Kostur þess að vera með þessi þrjú svið var að ýta undir þverfagleg rannsóknartækifæri og nýta betur þá styrkleika sem svæðið hefur upp á bjóða. Verkefninu var ætlað að stuðla að uppbyggingu háskólatengdrar starfsemi á eystri hluta Suðurlands, eflingu grunnrannsókna, auknum möguleikum íbúa til háskólanáms, eflingu ferðaþjónustu, miðlunar upplýsinga og fjölbreyttara atvinnulífi á svæðinu. Til að ná markmiðum verkefnisins var unnið að ýmsum verkefnum en þar má helst nefna undirbúning stofnunar þjóðháttaseturs í Skógum, eldfjallaseturs í Vestur-Skaftafellssýslu með starfsstöðvum í Vík og á Kirkjubæjarklaustri og setur lífrænna orkugjafa í Skógum. Stofnun þessara setra myndi auka möguleika til ýmissa rannsókna og þróunar á þessum sviðum. Þar væri einnig í boði aðstaða til vettvangsnáms fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi við háskóla hér á landi sem og erlendis en með því er hægt að efla svæðisbundna sérþekkingu. Setur þessi myndu vera ákjósanleg viðbót við atvinnulíf svæðisins og auka möguleika fólks með sérmenntun að snúa aftur í heimabyggð. Þá mun vera leitast við að bæta aðstöðu og efla möguleika íbúa til fjarnáms. Einnig eru uppi ýmsar hugmyndir að smærri verkefnum sem gætu tengst starfsemi setranna.