Það var fjölmenni í Glaðheimum á þjóðhátíðardaginn. Tilefnið var að 26 fjarnemendur Háskólans á Akureyri höfðu brautskráðst sl. laugardag, en þar sem þeir höfðu um árabil notið þjónustu Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands var haldin hátíð hér syðra. Hátíðin var það vel sótt að notast þurfti við fjarfundartækni til að miðla dagskránni milli rýma í Glaðheimum. Athöfnin hófst með því að Anna Rut Arnardóttir lék tvö lög á fiðlu.
Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins stýrði athöfninni.
Nokkur ávörp voru flutt við athöfnina, það fyrsta flutti varaformaður stjórnar HfSu, Örlygur Karlsson skólameistari.
Þá flutti Hafdís Skúladóttir formaður hjúkrunarfræðideildar Háskólans á Akureyri kveðjur frá háskólanum.
Næstur í pontu var Óskar Reykdalsson lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Þá var komið að Ásmundi Sverri Pálssyni framkvæmdastjóra Fræðslunets Suðurlands, en hann færði m.a. kandídötum rauða rós í kveðjuskyni.
Síðan kvaddi sér hljóðs fulltrúi kandídatanna, Katrín Sif Sigurgeirsdóttir
Að athöfn lokinni var boðið upp á hressingu og kandídatar stilltu sér upp til myndatöku í blíðviðrinu.