„Dagur atvinnulífsins á Suðurlandi“ verður haldinn í fyrsta sinn fimmtudaginn 17. febrúar 2022, frá kl. 10:00 – 17:00 á Hótel Selfossi.
Atvinnulíf á Suðurlandi er öflugt og fjölbreytt, og til þess að svo verði áfram er nauðsynlegt að fulltrúar þess hafi tækifæri til þess að hittast og ræða saman um leiðir til þess að efla það enn frekar. Í ljósi þess kallaði Sveitarfélagið Árborg saman fulltrúa nokkurra félaga á svæðinu, nánar tiltekið, Háskólafélags Suðurlands, Atorku og Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), til þess að ræða leiðir við að þétta raðirnar enn frekar. Úr varð að móta „Dag atvinnulífsins á Suðurlandi“ sem vettvang til samráðs og var ákveðið að þema þessarar fyrstu ráðstefnu yrði atvinnulífið, nýsköpun og menntun á Suðurlandi þar sem fyrirlesarar koma úr röðum atvinnurekanda og frá Samtökum atvinnulífsins, Rannís, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskólafélagi Suðurlands. Eftir erindin verður jafnframt vinnustofa þar sem þátttakendur taka virkan þátt í að móta framtíð sunnlensks atvinnulífs.
Áhugasöm fyrirtæki, félög og stofnanir geta kynnt starfsemi sína í kynningarbásum yfir daginn en nánari upplýsingar gefur Ólafur Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúi Árborgar, olafur.rafnar@arborg.is.
Í lok dags verður öllum ráðstefnugestum boðið í móttöku í Skyrlandi sem er ný upplifunarsýning í Mjólkurbúinu í miðbæ Selfoss.
Búið er að opna fyrir skráningu hér: DAGUR ATVINNULÍFSINS Á SUÐURLANDI og eru allir áhugasamir hvattir til að koma og taka þátt.
Hefjum árið af krafti og eflum í sameiningu samstöðu atvinnulífsins á Suðurlandi.