Í haust mun Háskóli Íslands í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands hefja tilraunakennslu á fagháskólanámi í leikskólafræðum en það er fræðilegt og starfstengt nám ætlað þeim sem uppfylla inntökuskilyrði í grunnnám á háskólastigi, m.a. með því að hafa starfað í leikskóla og stundað nám í framhaldsskóla og/eða í símenntunarmiðstöðvum. Kennslan fer fram í fjarnámi með staðarlotum sem haldnar verða á Suðurlandi.
Að loknu náminu geta nemendur sótt 60e viðbótarnám til grunndiplómu og áframhaldandi nám (60e) til bakkalárgráðu (B.Ed.) í leikskólakennarafræði.
Meginmarkmið námsins er að styrkja faglegan grunn nemenda fyrir starf í leikskóla. Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér fagleg viðhorf til uppeldis og menntunar í leikskólum og hljóti fræðilega og starfstengda þekkingu á uppeldi og menntun leikskólabarna ásamt þjálfun í að beita henni á vettvangi.
Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Háskólafélag Suðurlands í síma 560-2040 eða í hfsu@hfsu.is en þangað má jafnframt senda umsóknir og fylgigögn.
Drög að skipulagi námsins eru eftirfarandi:
Haust 2018
ÍET101G Talað mál og ritað 10-ECTS
Meginmarkmið námskeiðsins er að undirbúa nemendur til að takast á við háskólanám. Lögð er áhersla á að samþætta talað mál og ritað ásamt því að nemendur temji sér akademísk vinnubrögð og fái þjálfun ritun fræðitexta og í að flytja mál sitt á vettvangi skólans með því að:
- lesa greinar eftir íslenska fræðimenn, leggja mat á þær, greina og gera útdrætti
- skrifa fræðilega ritgerð þar sem lögð er áhersla á nákvæm, fræðileg vinnubrögð við meðferð og skráningu heimilda
- nemendur þjálfist í notkun tölva við nám í háskólaumhverfi og fá m.a. kennslu í efnisleit og að vega og meta gildi heimilda. Þá fá þeir þjálfun í að nota EndNote-Web, að búa til glærur og kynna efni á því formi
- kynnast stofnunum háskólans t.d. bókasafni og háskólatorgi
- Annað: Námsráðgjöf – tímastjórnun, hópvinna, námsferli og námsstíll. Enska – tölvufærni
Vor 2019
LSS202G Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni 10-ECTS (2ve)
Fjallað er um mikilvægi hreyfingar og hreyfiuppeldis í daglegu lífi barna og kynntar fjölbreyttar leiðir til tjáningar og líkamsþjálfunar sem hæfa börnum í leikskóla.
LSS104G Vísinda og listasmiðja 5-ECTS
Kannaðar verða leiðir til að efla í leik og skapandi starfi skilning ungra barna á náttúruvísindalegu viðfangsefnum á borð við segla, rafmagn, ljós og liti, samspil jarðar, sólar og tungls, tímatal, dag og nótt, og árstíðir. Sérstök áhersla verður lögð á einfaldar tilraunir við hæfi barna, leik að stafrænni tækni, vinnu með ýmsan efnivið og listræna tjáningu af myndrænum toga.
Haust 2019
LSS101G Leikskólafræði I – Leikskólinn sem menntastofnun 5-ECTS
Meðal þess sem fjallað er um er lagarammi skólastigsins, stefna og hugmyndafræði leikskólastarfs, samstarf heimilis og leikskóla, leik- og námsumhverfi barna og tengsl umhverfisþátta á næringu og heilbrigði barna.
LSS302G Umhverfi sem uppspretta náms 10-ECTS
Fjallað verður um náttúrufræðileg og stærðfræðileg fyrirbæri í umhverfi barna svo sem smádýr, plöntur, form, fjölda, mynstur, vatn og loft. Nemendur skoða gögn og leiðir sem nýta má við undirbúning og skipulagningu kennslu þar sem umhverfið er nýtt sem uppspretta náms. Nemendur prófa valin viðfangsefni með börnum á vettvangi.
SNU003G Leikur og tækni 5-ECTS
Nemendur spreyta sig á teikningu og skapandi myndvinnslu í stafrænu umhverfi með stafræna sögugerð fyrir augum. Þeir myndskreyta og hljóðsetja sögur ætlaðar börnum og setja sig um leið í spor ungra nemenda í skapandi starfi þar sem reynir á listræna framsetningu í hljóði, mynd og hreyfingum.
Vor 2020
LSS305G Leikskólafræði II – leikur, samskipti og skráning 10-ECTS (4ve)
Fjallað er um ólíkar kenningar um leik og áhrif þeirra á sýn á börn og leikskólastarf. Rýnt í ólíkar birtingamyndir leiks og náms, annars vegar út frá sjónarhorni barna og hins vegar sjónarhorni fullorðinna. Áhersla er lögð á rannsóknir um samskipti barna og leik. Kynntar verða athugunar- og skráningaleiðir sem nýttar eru í þeim tilgangi að meta og gera nám barna í leik sýnilegt. Auk þess verður skoðað hvernig námsumhverfi leikskólans hefur áhrif á þátttöku barna í leik.
LSS405G Barnabókmenntir fyrir yngri börn 5-ECTS
Fjallað er um gildi barnabókmennta í uppeldi og menntun barna með áherslu á menningu og samfélag, jafnrétti, fjölmenningu, lestur, læsi og lífsleikni. Einnig um tengsl barnabókmennta við þjóðlegan og alþjóðlegan sagnasjóð sem og aðrar tegundir bókmennta og listgreina.