Háskólafélag Suðurlands tekur nú í fyrsta sinn þátt í Háskóladeginum í FSu þar sem fulltrúar frá mörgum háskólum munu kynna námsframboð skólanna núna á mánudaginn, 14. mars kl. 10-11:30.
Starfsmenn Háskólafélags Suðurlands munu kynna sérstaklega þjónustu félagsins fyrir þá sem stunda fjarnám og þá aðstöðu sem háskólanemum stendur til boða í Fjölheimum á Selfossi. Þar er meðal annars um að ræða góða vinnu- og nemendaaðstöðu, þjónustu vegna prófa, fyrirlestra í gegnum fjarfundabúnað og fleira. Auk fjarnema nýtist aðstaðan í Fjölheimum einnig háskólanemum sem eru að vinna að verkefnum og lokaritgerðum í námi sínu, hvort sem er í staðarnámi eða fjarnámi.
Á Háskóladeginum í FSu verður einnig gefið yfirlit um þær ólíku námsgreinar sem háskólar landsins bjóða nú upp á í fjarnámi. Fjarnám er í sumum tilfellum raunhæfur kostur til að stunda háskólanám í heimabyggð.