Málþing Háskólafélags Suðurlands um rannsóknir á Suðurlandi var bæði fróðlegt og mjög vel sótt. Ávörp og erindi voru stórfróðleg og til vitnis um það blómlega vísindastarf sem unnið er að víðs vegar um Suðurland. Skoða má glærurnar frá málþinginu undir hnappnum Viðburðir hér á heimasíðu félagsins.
Að málþinginu loknu í FSu var haldið yfir Tryggvagötuna í Glaðheima þar sem húsnæðið var formlega vígt sem háskólasetur. Fjöldi gesta sótti Glaðheima heim, hlýddi á ávörp og gæddi sér á sunnlensku smáréttaveisluborði frá Ole Olesen. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá þessum góða degi en þær tók Örlygur Karlsson skólameistari.
Ágúst Sigurðsson ráðstefnustjóri við skyldustörf!
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra flutti setningarávarp
Erlingur Jóhannesson greindi frá fjölþættu mennta- og vísindastarfi við Íþróttafræðisetur Háskóla Íslands á Laugarvatni
Ragnar Sigbjörnsson fjallaði um rannsóknir í jarðskjálftaverkfræði. Rannsóknarmiðstöð HÍ í jarðskjálftaverkfræði tók til starfa á Selfossi í ársbyrjun 2000 og má segja að jarðskjálftavirkni á Suðurlandi hafi tekið kipp strax í kjölfarið!
Anna María Ágústsdóttir jarðfræðingur hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti greindi frá fjölþættri rannsókna- og vísindastarfsemi stofnunarinnar.
Styrkþegi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Fræðslunets Suðurlands, Sigrún Vala Björnsdóttir sjúkraþjálfari við HNLFÍ í Hveragerði, greindi frá doktorsverkefni sínu en það fjallar um árangursmælingar í verkjameðferð á stofnuninni.
Tómas Grétar Gunnarsson forstöðumaður nýstofnaðs Háskólaseturs Suðurlands greindi frá starsemi fræðasetra HÍ á landsbyggðinni, en setrið á Suðurlandi er það nýjasta og mun einkum sinna rannsóknum á landnýtingu. Tómas hefur starfsstöð bæði í Gunnarsholti og í Glaðheimum.
Steingerður Hreinsdóttir formaður stjórnar Háskólafélagsins sleit málþinginu og lýsti vilja félagsins til að vera virkur þátttakandi í rannsókna- og vísindasamfélaginu á Suðurlandi.
Málþingsgestir
Málþingsgestir – séð úr útsuðri
Þór Vigfússon fyrrum skólameistari stýrði vígsluhátíðinni af sinni alkunnu snilld.
Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri í Árborg flutti árnaðaróskir frá bæjarstjórninni.
Rögnvaldur Ólafsson forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Háskólafélaginu ávarpaði samkomuna, en nýstofnað landnýtingarsetur hefur starfsaðstöðu í Glaðheimum.
Gylfi Þorkelsson formaður stjórnar Fræðslunets Suðurlands færði vígslugestum kveðjur frá Fræðslunetinu en náms- og starfsráðgjafar þess hafa starfsaðstöðu í Glaðheimum.
Þorvaldur Guðmundsson formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands færði Háskólafélaginu blómvönd í tilefni dagsins, en háskólafélagið er einmitt stofnað að tilhlutan atvinnuþróunarfélagsins.
Hjörtur Þórarinsson formaður stjórnar Hollvarðasamtaka Fjölbrautaskóla Suðurlands færði Glaðheimum blómlega kveðju ásamt eftirfarandi stöku:
Heill nýju Háskólasetri
hollráð á öndverðum vetri.
Bjartsýni bæði og búsetugæði,
menntunin meiri og betri.
Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins færði gestum þakkir fyrir komuna (ávarp), góðar gjafir og árnaðaróskir og bauð þeim að gæða sér á sunnlenskum veitingum. Hér fyrir neðan eru svo nokkrar myndir af samkomugestum: