Fjölmennur kynningarfundur um nám í iðnfræði og byggingarfræði var haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurlands mánudagskvöldið 15. júní sl.
Jens Arnljótsson lektor og verkefnisstjóri í Háskólanum í Reykjavík (HR) og Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands (HfSu) kynntu áformað samstarf HR og HfSu í þessu sambandi. Um er að ræða starfstengt háskólanám fyrir iðnaðarmenn.
Þeir sem lokið hafa meistaraskóla eða stúdentsprófi uppfylla inntökuskilyrði í þetta nám en aðrir geta þurft að bæta við sig námi í ensku, íslensku, stærðfræði og raungreinum, en það nám er hægt að stunda samhliða iðnfræðináminu. Í öllum tilvikum er um fjarnám að ræða í iðnfræðinni, en HfSu mun bjóða upp á námsaðstöðu í Glaðheimum og er tilgangur þess m.a. sá að draga úr brottfalli sem gjarnan er nokkuð mikið í slíku fjarnámi. Þá verður möguleiki á því að taka undirbúningsnámið í FSu, ýmist í dagskóla eða kvöldskóla.
Til skamms tíma hefur iðnfræðin verið skipulögð sem þriggja ára nám samhliða vinnu, en nú er einnig hægt að stunda þetta sem fullt nám og taka það á einu og hálfu ári, og með þeim hætti er það lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Þá var á fundinum kynnt nám í byggingafræði til BS gráðu en hingað til hafa íslenskir iðnaðarmenn gjarnan sótt sér það nám til Danmerkur. Nú er það í boði sem fjarnám við HR að loknu námi í iðnfræði.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að nú er útlitið dökkt á vinnumarkaði. Við þær aðstæður er kjörið tækifæri að spýta í lófana og styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum með því að bæta við sig námi í iðnfræði. Umsóknarfrestur um námið er til og með 30. júní 2009, umsækjendum er bent á að frekari upplýsingar má fá hjá Jens Arnljótssyni (jensarn@ru.is, s. 599-6442) og Sigurði Sigursveinssyni (sigurdur@hfsu.is, s. 897-2814).