Skip to content Skip to footer

Hreiðrið

Frumkvöðlasetur

Tilgangur Hreiðursins er að styðja við og efla frumkvöðla á Suðurlandi. Auka þekkingu og vitund þeirra á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og markaðsmála og fjölga þannig vel skilgreindum og mótuðum verkefnum á svæðinu.

Frumkvöðlasetur

Slíkt gerir frumkvöðlana jafnframt hæfari til þess að sækja sér fjármagn, hvort sem er í gegnum samkeppnis- og/eða vísisjóði, sem og aðrar fjármögnunarleiðir. Markmiðið er að til verði nýjar vörur og/eða þjónusta hjá frumkvöðlum á Suðurlandi ásamt fjölgun starfa á svæðinu.

Hreiðrinu á Selfossi er stýrt af Háskólafélagi Suðurlands en samstarf um frumkvöðlahandleiðslu er við ráðgjafa á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga/SASS, FabLab Selfoss og Atorku auk leiðara (e. mentors) úr sunnlensku samfélagi.

Í boði er vinnuaðstaða í Hreiðrinu sem staðsett í Fjölheimum ásamt handleiðsla ráðgjafa sem mótuð er út frá þörfum frumkvöðulsins. Nokkrir frumkvöðlar geta starfað í Hreiðrinu á sama tíma og njóta því einnig jafningjastuðnings. Ef þú telur að þitt verkefni gæti blómstrað við þessar aðstæður hvetjum við þig til að kynna þér Hreiðrið.

Frumkvöðlasetur

Nánari upplýsingar

Opnunartími Hreiðursins er frá
kl. 07:00 til 24:00 alla daga.

Nánari upplýsingar:

Ingunn Jónsdóttir
ingunn@hfsu.is

Allir sem hafa áhuga á að þróa hugmynd sína að vöru/þjónustu geta fengið aðstöðu í Hreiðrinu, svo lengi sem rými er laust.

Í boði er skrifstofuaðstaða í herbergi með 4 vinnuborðum, nettenging, skjár, lyklaborð, mús og skrifborðsstóll. Frumkvöðlar koma með sínar eigin tölvur. Aðgangur að FabLab Selfoss í Fjölbrautaskóla Suðurlands í samráði við forstöðumann þess. Vinnuborð í Hreiðrinu geta verið tvísetin. Skápar eru til að læsa inni persónulega muni og gögn sem viðkomandi vill geyma á staðnum. Aðgangur er að kaffistofu en viðkomandi koma sjálfir með kaffi og annað sem þeir vilja neyta þar. Einnig er aðgangur að fundarherbergjum með fjarfundarbúnaði.

Á meðan frumkvöðull er með aðstöðu í Hreiðrinu hefur hann aðgang að ráðgjöfum HfSu. til að vinna að framgangi hugmyndar sinnar með þeim hætti sem hann metur bestan. Ráðgjafar HfSu. geta aðstoðað við að sækja um fjármagn til verkefna t.d. í Uppbyggingarsjóð Suðurlands, sjóði Rannís o.fl.

Starfsmenn Háskólafélags Suðurlands taka viðtal við umsækjendur í Hreiðrinu og meta þörf þeirra á aðstoð og tímalengd samnings áður en gengið er frá samningi.

Í framhaldi er gerður samningur á milli frumkvöðuls og Háskólafélags Suðurlands um lengd tímabils, hvaða hluta verkefnis á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og markaðsmála viðkomandi ætlar að vinna að í Hreiðrinu og hvaða ráðgjöf viðkomandi getur leitað eftir hjá ráðgjöfum HfSu.

 Í upphafi er gerður samningur um hversu lengi viðkomandi vill nýta sér aðstöðu í Hreiðrinu og aðgang að ráðgjöfum. Tímabilið er lágmark einn mánuður í upphafi og hámark 6 mánuðir. Að tímabilinu loknu er þörfin fyrir framhaldið metin og hægt er að framlengja í allt að 12 mánuði.

Kostnaði er haldið í lágmarki. Greitt er lyklagjald fyrir kort kr. 2000 sem fæst endurgreitt við skil á korti. Mánaðarlegt gjald fyrir aðstöðu í Hreiðrinu og aðgang að ráðgjöfum er á bilinu 10.000-15.000 kr./mánuði og fer eftir lengd samnings.

Kynning á Hreiðrinu

Myndir frá starfinu okkar