Fréttir

Góðir gestir frá Valmiera í Lettlandi

Góðir gestir sóttu heim Háskólafélag Suðurlands nú í vikunni. Um var að ræða sjö manna hóp af þróunarsviði borgarinnar Valmiera í Lettlandi. Heimsóknin var styrkt af sjóðnum Nordic-Baltic Mobility Programme for Public Administration og er þetta þriðji hópurinn á tæpi ári sem Háskólafélagið tekur á móti, áður komu hingað starfsmenn borganna Valga og Tartu í Eistlandi. Ísland á fulla aðild að sjóðnum í gegnum norrænu ráðherranefndina, en hann hefur lítið verið kynntur hérlendis. Í lok júní sl. sótti einmitt átta manna hópur Sunnlendinga m.a. borgina Valmiera heim með styrk frá fyrrnefndum sjóði.

Vel var tekið á móti Lettunum. Í Fjölheimum fengu þeir kynningu á Háskólafélaginu, Fjölheimum, samstarfi félagsins við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um Sóknaráætlun Suðurlands auk kynningar frá FSu á íþróttaakademíum skólans. Síðan var haldið út í FSu og síðan í Tíbrá þar sem þeir Gissur Jónsson framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss kynnti starfsemi félagsins og Bragi Bjarnason deildarstjóri menningar- og frístundaþjónustu sveitarfélagsins Árborgar kynnti áform sveitarfélagsins um uppbyggingu íþróttamannvirkja.  Borgin Valmiera leggur mikla áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja og er m.a. að byggja stórt farfuglaheimili (hostel) við endurbyggðan frjálsíþrótta- og knattspyrnuvöll og var mál manna að þarna væri í burðarliðnum ákjósanlegt æfingasvæði fyrir sunnlenska og aðra íslenska íþróttahópa. Þá fékk hópurinn ítarlega kynningu hjá Leó Árnasyni hjá Sigtúni þróunarfélagi á uppbyggingaráformum nýs miðbæjar á Selfossi.

Þá var haldið í kynnisferð austur í sýslur; í Kirkjubæjarstofu tóku þær Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri og Þuríður Helga Benediktsdóttir verkefnisstjóri á móti hópnum, á Þorvaldseyri þau Berglind Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri Kötlu jarðvangs og Jóhannes Marteinn Jóhannesson verkefnistjóri jarðvangsins, og loks tóku þau Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri og Guðlaug Ósk Svansdóttir verkefnisstjóri á móti hópnum á Hvolsvelli.

Í tilefni dagsins, 23. ágúst, var mynduð handabandakeðja með gestunum, en fyrir nákvæmlega þrjátíu árum tók almenningur í Eystrasaltslöndunum þremur sig saman um að mynda slíka keðju milli höfuðborga landanna þriggja en á þessum tíma voru löndinn ennþá hluti Sovétríkjanna sálugu. Í dag hélt einn þingmanna Suðurkjördæmis, Silja Dögg Gunnarsdóttir, einmitt ræðu fyrir hönd norrænu ráðherranefndarinnar við hátíðlega athöfn í Riga í Lettlandi til að minnast þessara friðsamlegu mótmæla gegn yfirráðum Sovétríkjanna.

Hópurinn við Fjölheima

Mjólkurbikarinn góði sem kvennalið UMFS Selfoss vann í síðustu viku

Áherslur Sigtúns þróunarfélags

Gestunum þótti Skógafoss tilkomumikill

Í Reynisfjöru glitti í jarðfallið mikla …

… en lundinn og fýllinn létu sér fátt um finnast

Jakahrönn við mynni Jökulsár á Breiðamerkursandi. Reyndar hljóðaði ósk þeirra um að heimsækja „Diamond beach“ …

Lónið við hinn hörfandi Sólheimajökul stækkar stöðugt

Þegar hópurinn var kvaddur við Skeiðavegamótin var mynduð handabandakeðja í tilefni baltnesku keðjunnar sem mynduð var fyrir nákvæmlega þrjátíu árum.