Fréttir

Góðir gestir Uppsveitanna og Háskólafélagsins

Miðvikudaginn 5. júní 2019 var haldið áhugavert málþing í Fjölheimum. Um var að ræða 25 manna hóp frá Bretlandi í námsferð sem var styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Háskólafélagið var hinn formlegi samstarfsaðili en í reynd var það Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu sem skipulagði þessa vikuheimsókn hópsins sem fól m.a. í sér heimsókn í Laugarvatn Fontana, Efsta-Dal, Friðheima og Flúðasveppi. Hér má sjá dagskrá heimsóknarinnar, m.a. málþingsins.

Heimsóknin er mjög í anda Háskólafélagsins um að sinna samstarfsverkefnum, sem gjarnan fela bæði í sér tengingar innan héraðs og erlendis. Það er síðan okkar allra að virkja tengslanetin sem til verða til framþróunar á Suðurlandi.

Heiti heimsóknarinnar að þessu sinni var Sense of Place – Iceland´s Culinary Experience (SPICE), en haustið 2016 tókum við á móti sambærilegum hópi frá Bretlandi, þá var þemað Learn, Taste, Experience – Iceland. Það er því greinilegt að matur, upplifun og náttúra Uppsveitanna heilla!