Föstudaginn 22. júní 2018 hélt Háskólafélagið sína árlegu háskólahátíð til að samfagna með kandídötum sem brautskrást frá háskólum sínum nú í vor og hafa notið þjónustu félagsins varðandi próftöku og/eða námsaðstöðu. Um var að ræða a.m.k. á fimmta tug kandídata en þrettán sáu sér fært að mæta í Fjölheima enda margir komnir í vinnu og aðrir hugsanlega með hugann við fótboltann!
Eyjólfur Guðmundsson rektor HA ávarpaði samkomuna með hjálp tölvutækninnar, Jóhann Stefánsson lék á trompet og Hrafnkell og Ingunn afhentu brottfarendum viðurkenningarskjal og rós í kveðjuskyni. Að því loknu var boðið upp á hressingu á „háskólatorginu“ í Fjölheimum. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins stýrði athöfninu og flutti ávarp.
Flestir kandídatanna á athöfninni brautskráðust frá Háskólanum á Akureyri en einnig voru í hópnum kandídatar frá Háskólanum á Bifröst og Háskóla Íslands.
Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri átti ekki heimangengt en ávarpaði hátíðina frá Akureyri með hjálp tækninnar
Jóhann Stefánsson trompetleikari og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga spilaði tvö ættjarðarlög og setti þannig hátíðabrag á samkomuna
Hér má sjá kandídatana ásamt þeim Ingunni og Hrafnkeli