Fimmtudagurinn 11. janúar 2018 fer í sögubækur Háskólafélagsins, m.a. vegna þess að þann dag var nákvæmlega áratugur liðinn frá fyrsta stjórnarfundi félagsins. En 11. janúar 2018 var líka tvíþættur hátíðsdagur í menntamálum Sunnlendinga, í 17. sinn var kynnt árleg úthlutun úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands og í 10. sinn kynntu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands.
Hátíðarfundurinn hófst með því að Pétur Nói Stefánsson lék á flygil verkið Spænskan dans nr. 5 eftir Enrique Granados.
Fundarstjóri var Sigursveinn Már Sigurðsson formaður stjórnar Fræðslunetsins.
Venja er við þessa athöfn að fyrri verðlaunaþegi kynni verkefni sitt. Að þessu sinni kynnti dr. Jónas Guðnason doktorsverkefni sitt um Heklugos, en Jónas var styrkþegi sjóðsins 2013.
Styrkþegar Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands 2017 voru að þessu sinni tveir, Árnesingurinn Sigríður Jónsdóttir og Hornfirðingurinn Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir. Báðar vinna þær að meistaraprófsverkefnum, Sigríður við Landbúnaðarháskóla Íslands og nefnist hennar verkefni Beittar uppgræðslur á hálendi Íslands, reynsla bænda, aðferðir og árangur, og Sigrún Inga við Háskóla Íslands og nefnist hennar verkefni Málefni Breiðamerkursands og evrópski landslagssáttmálinn. Sveinn Aðalsteinsson, formaður stjórnar Háskólafélagsins og formaður sjóðsstjórnar kynnti verkefni styrkþeganna en samkvæmt áralangri hefð afhenti forseti lýðveldisins, hr. Guðni Th. Jóhannesson, styrkinn góða.
Sveinn Aðalsteinsson, Guðni Th. Jóhannesson, Sigríður Jónsdóttir og Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir
Guðni Th. flutti snjallt ávarp við verðlaunaafhenginuna, og Sigríður flutti frumsamið ljóð.
Styrkur Vísinda- og rannsóknarsjóðsins eru veittir á grundvelli mats á umsóknum, en Menntaverðlaun Suðurlands eru veitt á grundvelli tilnefninga, en rétt til að tilnefna hafa allir þeir sem tengjast skóla- og menntunarstarfi með einhverjum hætti, sveitarfélög, skólanefndir, foreldrar, kennarar og starfsfólk skóla og annað áhugafólk um menntun og skólastarf, og skal fylgja tilnefningum ítarlegur rökstuðningur.
Gunnar Þorgilsson formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga kynnti niðurstöðu valnefndar en að þessu sinni hlaut verðlaunin framkvæmdastjóri Háskólafélagsins,Sigurður Sigursveinsson, og var það í fyrsta skipti sem verðlaunin falla einstaklingi í skaut. Tilnefningaraðilarnir voru fjölmargir háskólanemar sem nýta sér námsaðstöðuna í Fjölheimum, en tilnefninguna sjálfa má sjá hér,
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin, vanur orðuveitingum!
Verðlaunahafinn flutti ávarp en Ingunn, Bjarni, Olga Lísa, Sveinn, Gunnar og Guðni Th. brostu í kampinn!
Kátir voru karlar!
Magnús Hlynur Hreiðarsson tók myndirnar sem fylgja þessari frétt.