Brynja Hjálmtýsdóttir, verkefnastjóri hjá HfSu og atvinnuráðgjafi á vegum SASS, sótti á dögunum haustufnd atvinnuráðgjafa.
Hún tók saman ferðasöguna í máli og myndum.
Í fyrstu viku nóvember var haustfundur atvinnuráðgjafa landshlutasamtaka sveitarfélaga haldinn í Stykkishólmi. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi voru gestgjafar að þessu sinni.
Í boði var afar fjölbreytt og skemmtileg dagskrá. Á miðvikudag var farið í ferð um Snæfellsnes þar sem við fengum að kynnast margvíslegri atvinnustarfsemi á Snæfellsnesi undir leiðsögn Ragnhildar Sigurðardóttur framkvæmdastjóra Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi og Kristins Jónassonar bæjarstjóra í Snæfellsbæ. Kristinn fór einmitt sérstaklega yfir starfsemi Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og reynslu heimamanna af því starfi sem er mjög jákvæð.
Byrjað var á heimsókn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði þar sem Friðbjörn Ásbjörnsson framkvæmdastjóri FISK og Soffaníasar Cecilssonar hf. kynnti starfsemi félagsins.
Síðan var haldið út á Rif þar sem við hittum Kára Viðarsson “raðfrumkvöðull” en hann tók á móti hópnum í Frystiklefanum á Rifi sem hann á og rekur. Hópurinn fékk að sjá stiklu úr kvikmynd Kára “Heimaleiknum” sem verður líklega frumsýnd næsta sumar, stiklan lofar mjög góðu. Gaman að heyra í Kára um hindranir og sigra frumkvöðulsins. Farið var út á Hellissand og skoðaðar veggmyndir sem hafa verið gerðar þar á hús í verkefninu „Street Art“ sem farið var í að frumkvæði Kára.
Ferðinni lauk svo með heimsókn í Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn þar sem Kristján Hildibrandsson sagði frá hákarlaveiðum og verkun og tilurð safnsins. Þar var að sjálfsögðu boðið upp á smakk af hákarli.
Á fimmtudeginum var fundað um byggðaþróun. Anna Hildur Hildibrandsdóttir og María Gylfadóttir kynntu Rannsóknarsetur í skapandi greinum við Háksólann á Bifröst. Starfsmenn Byggðastofnunar fóru yfir alþjóðlegt samstarf í byggðamálum og Vífill Karlsson fór yfir nýjustu greiningar í byggðaþróun og næstu skref. Þá fór Rebekka Kristín Garðarsdóttir atvinnuráðgjafi hjá SSNE yfir samstarf ráðgjafa landshlutasamtakanna.
Dagskráin var síðan brotin upp með gönguferð um Stykkishólm með Önnu Melsted þar sem við fræddumst um sögu Stykkishólms og fyrirtækja þar í bæ. Heimsóttum gömlu kirkjuna, Narfeyrarstofu þar sem boðið var upp á ljúfar veitingar beint upp úr Breiðafirðinum og að lokum farið í Æðarsetur Íslands og fræðst um starfsemi þess.
Fundinum var síðan haldið áfram undir liðnum Nýsköpun. Þar fór Kolfinna Katrínardóttir atvinnuráðgjafi SSNV yfir viðskiptahraðalinn Vaxtarrými sem er mjög spennandi hraðall. Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Orkídeu fór yfir starfsemi Orkídeu og samstarfsverkefni í nýsköpun á Suðurlandi. Starfsfólk SSV kynnti Nýsköpunarnet Vesturlands og Þuríður Aradóttir kynnti Matsjánna. Að lokum fór Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar yfir reynslu þeirra af því að taka þátt í Handiheat sem er samstarfsverkefni sem Austurbú tók þátt í í gegnum Norðurslóðaáætlun (NPA).
Fundinum lauk með innslagi frá Tryggva Hjaltasyni „Vá heimurinn er að breytast og ég hef allt í einu miklu fleiri tækifæri !“ Tryggvi er starfsmaður CCP tölvuleikaframleiðandans og búsettur í Vestmannaeyjum. Hann fór yfir möguleikana í fjarvinnu og hvaða tækifæri það getur skapað fyrir starfsmenn. Hann og kona hans hafa t.d. stofnað hljómsveit eftir að þau fluttu til Vestmannaeyja og gefa út tónlist sína á netinu. Hann var með góða samantekt á því aukna fjármagni sem lagðir hafa verið til nýsköpunar og þróunar á síðastliðnum árum en Ísland á orðið eitt besta stuðningskerfi í heimi í nýsköpun. Það hefur m.a. skilað sér í stóraukningu útflutningstekna í hugverkaiðnaði, eða tvöföldun frá 2013-2020. Einnig hafa útflutningstekjur í upplýsinga- og fjarskiptatækni, lyfja- líftækni- og heilbrigðisgeiranum og öðrum hátækni iðnaði vaxið mikið 2018-2020 eða að meðaltali yfir 60% á þremur árum. Hann hvatti fundarmenn eindregið til að vinna að eflingu nýsköpunar á landsbyggðinni og aukna sókn í þá sjóði sem eru fyrir hendi, eða eins og Tryggvi orðaði þetta: „Það hefur aldrei verið stærri og feitari tækifærisgluggi til nýsköpunar en núna !“.
Fundurinn var mjög fróðlegur og skemmtilegur og alltaf gaman að kynnast atvinnulífi í öðrum landshlutum. Þar sem ég var að koma á fund eins og þennan í fyrsta skipti var auðvitað margt nýtt fyrir mér. Það eina sem mátti setja út á fundinn var að dagskráin var of þétt þannig að ekki gafst nægur tími til umræðu eftir erindi og á milli fundarhluta. Það er greinilegt að atvinnuráðgjafar og landshlutasamtök sveitarfélaga eru öll að reyna að bregðast við brotthvarfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hvernig þau geta komið til móts við frumkvöðla og stuðlað að aukinni nýsköpun í heimabyggð. Ég hefði svo gjarnan vilja ræða þetta meira og dýpra þar sem hér er um sameiginlegt verkefni okkar að ræða þó þau séu síðan útfærð á mismunandi máta í hverjum landshluta.