Þann 6. október fóru starfsmenn Háskólafélags Suðurlands ásamt Braga Bjarnasyni deildarstjóra frístunda- og menningardeildar Árborgar í heimsókn til Markaðsstofu Kópavogs og SKÓP, sem er atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi. Þar tóku á móti okkur Björn Jónsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, Guðmundur Sigurbergsson stjórnarmaður Markaðsstofu og Sigurður Sigurbjörnsson forstöðumaður SKÓP.
Björn kynnti fyrir okkur ýmis verkefni sem Markaðsstofan hefur verið að vinna með atvinnulífinu í bænum t.d. vinnustofu fyrir fyrirtæki um innleiðingu heimsmarkmiðanna og gerð viljayfirlýsingar fyrirtækja um heimsmarkmiðin. Sameiginlegan bás (Kópavogsbás) á stórum viðskiptasýningum s.s. Verk- og vit og Sjávarútvegssýningunni. Markaðssetningu íþróttaviðburða og samræmingu þeirra innan stjórnsýslu bæjarins. Samvinnu við verktaka við uppbyggingu íbúðahverfa og margt fleira.
SKÓP er atvinnu- og nýsköpunarsetur í Kópavogi, stofnsett og rekið af Markaðsstofu Kópavogs sem samtarfsverkefni Kópavogsbæjar og atvinnulíf bæjarins. Þar er bæjarbúum hjálpað að koma sínum eigin viðskiptahugmyndum í framkvæmd og þannig stutt undir nýsköpun og fjölgun starfa. Einstaklingar geta leigt sér vinnurými á sanngjörnum kjörum og fengið aðstoð frá starfsmanni SKÓP við að koma verkefninu áfram t.d. hjálp við styrkumsóknir, ramma inn hugmynd og gera viðskiptaáætlun. Einnig hefur SKÓP fengið til sín gestafyrirlesara og farið í fyrirtækjaheimsóknir með aðila sem njóta þeirra leiðsagnar.
Háskólafélag Suðurlands hlaut á dögunum styrk úr Lóu – nýsköpunarsjóði landsbyggðarinnar, til þess að hefja undirbúning við stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs og var heimsóknin liður í þeirri vinnu enda brýnt að leita þangað sem reynsla er fyrir hendi svo verkefið náið að byggja á traustum grunni.
Miklar umræður sköpuðust á fundinum og var hann einkar fróðlegur.