Líklega var það þrennt sem setti sérstakan svip á árið 2018 í starfi Háskólafélags Suðurlands:
- Framkvæmdastjóri félagsins, Sigurður Sigursveinsson, hlaut Menntaverðlaun Suðurlands sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega. Var þetta í fyrsta skipti sem þau voru veitt einstaklingi og afhenti forseti Íslands, hr. Guðni Th Jóhannesson, Sigurði verðlaunin við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands 11. janúar 2018. Sigurður var tilnefndur til verðlaunanna af háskólanemendum sem nýtt hafa sér þjónustu félagsins í Fjölheimum á Selfossi. Svo skemmtilega vildi til að nákvæmlega 10 árum fyrr, 11. janúar 2008, var haldinn fyrsti stjórnarfundur Háskólafélagsins, og fyrir nákvæmlega sjö árum, þ.e. 11. janúar 2011, var haldinn fyrsti stjórnarfundur Kötlu jarðvangs en Háskólafélagið átti drjúgan þátt í stofnun hans.
Afhending menntaverðlaunanna
- FabLab smiðju var komið á laggirnar á árinu á Selfossi og er hún til húsa í nýju verknámshúsi FSu. Í FabLab smiðjum er áhersla lögð á stafræna framleiðsluhætti. Um er að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni sem á rætur í MIT (Massachusetts Institute of Technology). Í árslok 2017 voru rúmlega 1200 FabLab starfræktar um allan heim. Verkefnið á Selfossi spratt upp úr tveimur verkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands sem Ingunn Jónsdóttir, starfsmaður HfSu, leiddi. 2016 var það verkefnið Nýsköpun sem nám í grunnskólum á Suðurlandi en í því verkefni þróuðu starfsmenn FabLab smiðjanna í Vestmannaeyjum og á Höfn, Frosti Gíslason og Vilhjálmur Magnússon, námsefni fyrir grunnskólakennara varðandi hagnýtingu FabLab smiðja í starfi grunnskóla. 2017 var svo skilgreint sóknaráætlunarverkefnið FAB LAB verkstæði – rekstraráætlun. 30. apríl 2018 var undirritaður fjórhliða samstarfssamningur SASS, FSu, HfSu og Héraðsnefndar Árnesinga um rekstur smiðjunnar til fimm ára en með endurskoðunarákvæeði eftir þrjú ár. 24. mai 2018 var svo undirritaður þriggja ára tvíhliða samningur HfSu og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um FabLab smiðjuna í FSu. FabLab smiðjan var svo formlega tekin í notkun við hátíðlega athöfn í FSu 28. nóvember 2018. FabLab smiðjunni stýrir starfsmaður Háskólafélagsins, Magnús Stephensen.
Undirritun samsarfssamnings HfSu og NMÍ
Sigurður setti vígslusamkomuna
Ingunn var fundarstjóri
Sigurður Þór stjórnarmaður HfSu og fráfarandi formaður Atorku, samtaka atvinnurekenda á Suðurlandi, flutti ávarp en fyrirtæki í Atorku hafa stutt myndarlega við tækjakaup í smiðjuna
Magnús skýrði starfsemi smiðjunnar
- Á árinu fór af stað fyrsti námshópurinn í samstarfi félagsins við Háskóla Íslands um uppbyggingu náms á fagháskólastigi. Samstarf félagsins við HÍ hefur verið að styrkjast undanfarin ár í góðri samvinnu við SASS, Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi. Segja má að verkefnið eigi rætur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vorið 2015 í tengslum við gerð kjarasamninga þar sem tryggðir voru fjármunir til að vinna að skilgreiningu fagháskólastigs. Í könnun á áhuga og eftirspurn eftir fjarnámi á Suðurlandi sem HfSu, HÍ og SASS stóðu að 2016-2017 (áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands 2016) kom fram mikill áhugi forsvarsmanna sveitarfélaganna á auknu námsframboði fyrir starfsfólk leikskólanna. HfSu gerðist síðan haustið 2017 aðili að þremur þróunarverkefnum um fagháskólastigið sem HÍ vinnur að í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og 2018 var skilgreint áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands um tilraunaverkefnið Fagháskólanám á Suðurlandi. Í september 2018 fór svo af stað 11 manna námshópur starfsmanna leikskóla á í hagnýtum leikskólafræðum. Flestir nemendanna uppfylltu ekki hefðbundin inntökuskilyrði til háskólanáms en höfðu m.a. lagt stund á nám á svokallaðri leikskólabrú hjá Fræðlsunetinu. Nemendurnir mættu að jafnaði í þriggja tíma staðarlotu eftir hádegi á föstudögum í Fjölheimum á Selfossi en kennarar HÍ mættu þá á Selfoss. Einn nemendanna þurfti að hverfa frá námi en nemendurnir tíu stóðust allir námskröfur áfanga haustannarinnar og innritast nú um áramótin formlega í HÍ, en á haustönninni höfðu þeir verið innritaðir hjá HfSu.
Fyrsti tíminn í hagnýtum leikskólafræðum í Fjölheimum 21. september 2018
Háskólafélagið óskar Sunnlendingum og öðrum landsmönnum árs og friðar með þakklæti fyrir samstarfið á árinu 2018.