Við smalamennsku á Löðmundi, Landmannaafrétti, haustið 2023
Hugrún rannsakaði efnahagsleg áhrif heimsfaraldurs Covid-19 og áhrif áfallastjórnunar í endurreisnarferli. Við ætlum að kynnast Hugrúnu og rannsókn hennar aðeins betur.
Nafn: Hugrún Hannesdóttir
Aldur: 49
Starf: Sérfræðingur í áhættustjórnun hjá VSÓ Ráðgjöf.
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi? Erfitt að svara, því þeir eru nokkuð margir en allir á hálendinu. Fjallabak er samt í sérflokki og þá ekki síst Löðmundur.
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Skiptist nokkuð jafnt, hvort okkar eldar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Verða leiðsögumaður og ferðast um landið.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Gæfuspor e. Gunnar Hersvein
Áttu gæludýr? Erum með kött og tvo hunda.
Kaffi eða te? Kaffi svona almennt séð.
Hver er þín helsta líkamsrækt? Fjölbreytt útivist, hlaup, ganga, skíðaiðkun.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Erfitt að segja, en myndi sennilega svara að vera að borða eitthvað á framandi slóðum og vita ekki fyrir víst hvað maður væri að borða og t.d. í Kína eða Eþíópíu.
Sumar, vetur, vor eða haust? Get ekki gert upp á milli, hver árstíð heillandi, ekki síst út frá fjölbreyttri útivist.
Áttu þér uppáhalds vorfugl? Nei, eiginlega ekki.
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlón) á landinu? Sundlaugin á Ólafsfirði.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum hvert myndirðu fara? Svalbarða.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni um umhverfið? Með því að flokka og týna upp rusl ef ég sé það.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna? Að koma sér upp góðu skipulagi reyndist mér vel og að vera virkur þátttakandi í öllu hópastarfi.
Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland? Rannsóknin mín fjallaði um Mýrdalshrepp en er einnig innlegg í verkfærakistu minni sveitarfélaga úti á landi.
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni? Mér fannst Mýrdalshreppur einfaldlega afar spennandi, út frá staðsetningu sem og þeim miklu breytingum sem hafa orðið í sveitarfélaginu á stuttum tíma.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna? Að kynnast því frábæra fólki sem býr í sveitarfélaginu.
Segðu okkar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli:
Áfallastjórnun snýr að forvörnum, viðbúnaði, viðbrögðum og endurreisn vegna áfalla. Í þessari rannsókn er áfallastjórnun greind í fámennu sveitarfélagi, Mýrdalshreppi, vegna þess samfélagslega áfalls sem fólst í COVID-19 heimsfaraldrinum. Í úttekt Byggðastofnunar sem unnin var fyrir stjórnvöld var Mýrdalshreppur eitt þeirra sveitarfélaga sem varð fyrir hvað mestum efnahagslegum samdrætti vegna faraldursins. Endurreisnarferli vegna áfalla hefur lítið verið rannsakað á Íslandi en í þessari rannsókn eru áhrif stuðningsaðgerða stjórnvalda til atvinnulífsins meðal þess sem skoðað er. Þannig er rannsóknin mikilvægt innlegg í endurreisnarverkfærakistu framtíðarinnar, ásamt öðrum lærdómi sem hún skilar til sveitarfélaga vegna hugsanlegra áfalla.
Viðbúnaður og viðbrögð í Mýrdalshreppi eru skoðuð ítarlega í verkefninu þar sem beitt var eigindlegri rannsókn. Viðtöl voru tekin við 14 viðbragðsaðila og heimamenn til að leita svara við rannsóknarspurningunum. Áfallastjórnun mótar hinn fræðilega grunn sem og greiningaramma rannsóknar.
Megin niðurstöður voru afgerandi á þann hátt að stuðningur stjórnvalda hefði haft mikla þýðingu, bæði aðgerðir á landsvísu og sértæki stuðningurinn sem Mýrdalshreppi var veittur. Faraldurinn var mikil áskorun fyrir atvinnulífið í sveitarfélaginu en sveitarstjórn tók þá ákvörðun strax við upphaf hans að gefa í hvað framkvæmdir varðaði, sem varð heilladrjúgt. Sýnilegar framkvæmdir höfðu jákvæð áhrif og upplifðu íbúar sértækan stuðning sem viðurkenningu á því að þeirra staða væri sérstaklega erfið. Samstaða íbúa var mikil en áskoranir vegna mikillar íbúaþróunar eru verulegar, til framtíðar litið.
Við þökkum Hugrúnu kærlega fyrir þetta innlegg en hægt er að lesa rannsókn hennar og skrif með því að smella hér.
Smelltu hér til að lesa fræðigrein í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.