Föstudaginn 19. nóvember sl. voru haldnir tveir stofnfundir í Brydebúð í Vík. Annars vegar var um að ræða sjálfseignarstofnunina Kötlusetur, og hins vegar sjálfseignarstofnunina Katla Jarðvangur.
Skv. skipulagsskrá er tilgangur Kötluseturs að byggja upp og reka atvinnustarfsemi á sviði náttúruvísinda, land- og ferðamálafræða og menningarmála í Vík. Þá er markmið félagsins að vinna að rannsóknum á ofangreindum sviðum og gera afraksturinn sýnilegan almenningi. Stofnaðilar Kötluseturs eru þrír; Menningarfélag um Brydebúð, Mýrdalshreppur og Háskólafélag Suðurlands. Menningarfélagið leggur húseigninga Brydebúð til setursins og Mýrdalshreppur leggur til húseignirnar Skaftfellingsbúð og Halldórsbúð. Vélskipið Skaftfellingur, sem Sigrún Jónsdóttir listamaður flutti frá Vestmannaeyjum árið 2001, er til húsa í Skaftfellingsbúð og er nú unnið að endurbótum á húsnæðinu á vegum Mýrdalshrepps.
Fimm manna stjórn hefur verið tilnefnd af stofnaðilum til að stýra Kötlusetri, en það eru Ásgeir Magnússon og Elísabet Ásta Magnúsdóttir tilnefnd af Mýrdalshreppi, Þórir Kjartansson og Æsa Gísladóttir tilnefnd af Menningarfélagi um Brydebúð, og Sigurður Sigursveinsson tilnefndur af Háskólafélagi Suðurlands.
Katla Jarðvangur (á ensku Katla Geopark) var einnig stofnaður sl. föstudag. Skv. skipulagsskrá er tilgangur stofnunarinnar að vernda og nýta jarðminjar svæðisins í þágu sjálfbærrar þróunar og eflingu byggðarinnar. Þróuð verði jarðfræðitengd ferðamennska á svæðinu (Geotourism) sem byggi á fræðslu um jarðminjar, samspil manns og náttúru, og útivist. Með aðild að European Geoparks Network, og því gæðaferli sem í henni felst, er tilgangurinn að efla markaðsstarf á svæðinu með sérstakri áherslu á að auka atvinnustarfsemi og gjaldeyristekjur. Unnið verði að markvissri uppbyggingu innviða og þróun fræðsluefnis í samstarfi við sveitarfélögin og aðra aðila á svæðinu. Tilgangur félagsins er að efla samstarf atvinnulífs, sveitarfélaga, ríkisvalds og stoðkerfis með öflugu markaðsstarfi innanlands sem utan. Tilgangur stofnunarinnar er því að kynna svæðið til þess að bæta búsetuskilyrði með því að afla nýrra atvinnutækifæra.
Katla Jarðvangur tekur til lands sveitarfélaganna þriggja; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Auk sveitarfélaganna þriggja eru stofnendur jarðvangsins: Skógasafn, Kötlusetur, Kirkjubæjarstofa, Háskólafélag Suðurlands og Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Stjórn jarðvangsins skipa þau Ingibjörg Eiríksdóttir, tilnefnd sameiginlega af Kirkjubæjarstofu og Skaftárhreppi, Ásgeir Magnússon tilnefndur sameiginlega af Kötlusetri og Mýrdalshreppi, og Ísólfur Gylfi Pálmason tilnefndur sameiginlega af Skógasafni og Rangárþingi eystra. Rögnvaldur Ólafsson er varamaður í stjórn, skipaður sameiginlega af Háskólafélagi Suðurlands og Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að einstakir ferðaþjónustuaðilar gerist félagsaðilar að jarðvanginum og munu þeir tilnefna einn fulltrúa í varastjórn á fyrsta ársfundi jarðvangsins.
Sex manna vinnuhópur vinnur nú að aðildarumsókn jarðvangsins að European Geoparks Network, og þarf hún að vera komin til skila 1. desember nk.
Á fundinum var tilkynnt um niðurstöðu í nafnasamkeppni sl. vor um heiti á jarðvanginum. Eins og fram hefur komið var það Katla sem varð fyrir valinu, tillaga þess efnis barst frá Páli Sveinssyni í Grunnskóla Mýrdalshrepps og fær hann viðurkenningarskjal og 25.000 krónur að launum.
Húsfyllir var á stofnfundunum og að fundum loknum bauð Menningarfélagið um Brydebúð til veglegs kaffisamsætis.