Fréttir

Kynningarfundur: Tækninám – fjarnám með vinnu

Háskólafélagið, SASS, Atorka og fleiri aðilar hafa unnið að því undanfarin ár að auka áhuga og aðgengi að námi í verk-,  iðn- og tæknigreinum, m.a. með starfamessum og stofnun Fablab smiðju í nýju verknámshúsi FSu. Þessi verkefni hafa verið studd af Sóknaráætlun Suðurlands en sóknaráætlanir eru stefnumarkandi áætlanir einstakra landshluta og taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar og annarri opinberri stefnumótun.

Háskólafélagið er samstarfsaðili Háskóla Íslands í nokkrum þróunarverkefnum á svokölluðu fagháskólastigi og hefur um langt árabil verið í samvinnu við Háskólann í Reykjavík varðandi nám í iðnfræði. Háskóli Íslands hefur nú endurskipulagt námið í tæknifræði sem var í boði í samvinnu við Keili á Ásbrú í Reykjanesbæ. Tæknifræðisetur HÍ er nú í gamla Lækjarskólanum í Hafnarfirði og námið er nú skipulagt þannig að auðveldara sé að taka það í fjarnámi með vinnu.  Þá er í boði sérstakur stuðningur á netinu fyrir nemendur sem þurfa að rifja upp eða efla kunnáttu sína í stærðfræði.

Við hvetjum alla Sunnlendinga sem vilja efla hæfni sína á þessu sviðum, hvort sem er í byggingagreinum, rafiðngreinum, forritun, véltækni, mekatróník, efnaiðnaði eða líftækni, til að koma á kynningarfund í Fjölheimum á Selfossi þriðjudaginn 4. júní, en þar munu Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík kynna námsframboð sitt á þessum sviðum.