Nú í vetur verður haldið námskeiðið Leiðsögn í jarðvangi – Katla Geopark.
Námskeiðið er haldið í samvinnu Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands með styrk frá Starfsmenntasjóði. Námskeiðið er skipulagt með þeim hætti að það hefst í Skógum undir Eyjafjöllum laugardaginn 26. febrúar og því lýkur á sama stað laugardaginn 16. apríl. Þess á milli verður kennt sex miðvikudagskvöld kl. 20-22. Gert er ráð fyrir að kennari kenni í Glaðheimum á Selfossi, en um leið verður fjarkennt á Hvolsvöll, Vík og Kirkjubæjarklaustur.
Í haust var formlega stofnaður jarðvangur (geopark) á Suðurlandi. Jarðvangurinn, Katla Geopark, tekur til sveitarfélaganna þriggja; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Markmið með starfsemi jarðvangsins er m.a. að vernda og nýta jarðminjar svæðisins í þágu sjálfbærrar þróunar og eflingu byggðarinnar. Þróuð verði jarðfræðitengd ferðamennska á svæðinu (Geotourism) sem byggi á fræðslu um jarðminjar, samspil manns og náttúru, og útivist. Markmið námskeiðsins er að stuðla að því að gera heimamenn færa um að taka að sér leiðsögn á jarðvangi.
Þátttakendur verða þjálfaðir í leiðsögutækni og fræddir um jarðfræði og menningu Mið- og Suðausturlands.
Hannes Stefánsson leiðsögumaður og framhaldsskólakennari verður aðalkennari á námskeiðinu en hann hefur m.a. tvívegis haft umsjón með svæðisleiðsögunámi á Suðurlandi.
Verðinu er stillt í hóf, 10.000 krónur, en um er að ræða 36 kennslustunda námskeið.
Nánari upplýsingar er hafa hjá Háskólafélagi Suðurlands (s. 897-2814) og Fræðslunetinu (s. 480-8155). Sjá einnig www.katlageopark.is.
Innritun á námskeiðið fer fram í síma 480-8155.