Styrking grunnnáms á háskólastigi og bætt aðstaða til fjarnáms
Háskólafélagið hefur auk fyrrgreindra verkefna verið í sambandi við Fræðslunet Suðurlands um mikilvæga samvinnu og/eða samþættingu Fræðslunetsins og Háskólafélagsins. Þar verði m.a. lögð áhersla á að styrkja almennt grunnnám á háskólastigi og bæta aðstöðu til fjarnáms í fjórðungnum, í tengslum við þau fræðasetur sem þegar eru á svæðinu, ásamt því að opna möguleika á fjölbreyttara háskólanámi í fjórðungnum m.a. í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem lögð væri áhersla á starfstengt háskólanám (t.d. iðnfræði) og annað háskólanám sem hentar vel á svæðinu (sbr. 20 gr. nýrra framhaldsskólalaga.).
Háskólafélag Suðurlands stefnir að því að vinna sér þann sess í huga vísindamanna, almennings og atvinnulífs á næstu fimm árum að vera framúrskarandi net sérhæfðar þekkingarþróunar og rannsóknastarfsemi á náttúru, lífríki, mannlífi, atvinnu og menningu á Suðurlandi. Háskólafélagið vill efla háskólamenntun, rannsóknir og nýsköpun á Suðurlandi og ætlar að vera eftirsóknarverður kostur fyrir Sunnlendinga og aðra þegar kemur að því að velja vettvang háskólanáms eða rannsókna- og þróunarstarfa.
Þrátt fyrir að vera „miðstöð“ þá stefnir HfSu að því að vera með dreifða starfsemi eða net sem nær um allt Suðurland og nýta kosti og möguleika upplýsingatækninnar í því skyni að byggja upp lífvænlegt þekkingarsamfélag á Suðurlandi öllu.
Innan Háskólafélags Suðurlands rúmast starfsemi helstu háskóla- og rannsóknastofnana í landinu auk annarra stofnana og fyrirtækja sem starfa á sviði rannsókna og þekkingarþróunar og sækja efnivið sinn í náttúru, lífríki, mannlíf og menningu á Suðurlandi. Stefnt er að því að samfara neti viðamikillar háskóla- og rannsóknastarfsemi nýtist aukin þekking til nýsköpunar og fjölbreytni í atvinnulífinu á Suðurlandi. Jafnframt verður lögð áhersla á að fjölga rannsóknastofnunum, menntastofnunum og þjónustufyrirtækjum innan vébanda Háskólafélagsins sem falla að stefnu þess.