Sameiginlegt námskeið Háskólafélagsins og Fræðslunetsins „Staðarleiðsögn á jarðvangi“ fer mjög vel af stað.
Laugardaginn 26. febrúar var fyrri staðarlotan í námskeiðinu og var hún haldin í gamla héraðsskólahúsinu í Skógum undir Eyjafjöllum. Hannes Stefánsson framhaldsskólakennari og leiðsögumaður setti námskeiðið en hann er umsjónarmaður þess. Ragnhildur Sveinbjarnardóttir ferðamálafræðingur og bóndi í Stóru-Mörk flutti erindi um hugtakið Jarðvang (geopark) og samstarfsnet þeirra, bæði í Evrópu og alþjóðlega undir merkjum UNESCO. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur og sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands flutti erindi um jarðfræði jarðvangsins og loks fræddi Þórður Tómasson námskeiðsgestina um söfnin í Skógum.
Miðvikudaginn 2. mars var svo fyrsta námskeiðskvöldið af sex, en þá flutti Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands erindi sem hann nefndi Jarðfræðileg umgjörð Eyjafjallajökuls og Kötlu og gosin 2010.
Kvöldnámskeiðin eru skipulögð með þeim hætti að fyrirlesarinn er staddur í Glaðheimum á Selfossi ásamt 12 þátttakendum, aðrir 12 eru á Hvolsvelli, 7 í Vík og aðrir 7 á Kirkjubæjarklaustri, samtals 38 þátttakendur. Staðirnir eru tengdir saman með myndfundarbúnaði þannig að þátttakendur á öllum stöðunum fjórum geta spurt fyrirlesarann nánar út í efni fyrirlestrarins.
Efni fyrirlesaranna verður gert aðgengilegt á vef jarðvangsins, http://www.katlageopark.is/index.php?option=com_rsfiles&view=files&Itemid=165&lang=is.