Góðir gestir sóttu Háskólafélagið heim í Fjölheima í síðustu viku. Um var að ræða tveggja daga vinnufund í Nordplus Horizontal verkefni sem nefnist The Learning Society. Megináhersla í verkefninu er að þróa kennsluaðferðir m.a. í ljósi hraðra tæknibreytinga á liðnum árum. Þá er sjónum einnig beint að hugtakinu resilience, sem þýtt hefur verið sem seigla á íslensku.
Verkefninu er stýrt af stofnuninni VIFIN í Vejle í Danmörku en auk Háskólafélagsins eru aðrir samstarfsaðilar Kaupmannahafnarháskóli, Agder háskólinn í Kristiansand í Noregi, sveitarfélagið Valga í Eistlandi og sveitarfélagið Kristiansand í Noregi.
Stefnt er að tilraunakennslu í verkefninu í lok ársins en fram að þeim tíma verður unnið að skilgreiningu markhópsins og þróun kennsluaðferða. Næsti vinnufundur í verkefninu verður í Kristiansand í lok ágúst.
Af hálfu Háskólafélagsins taka þau Ingunn Jónsdóttir og Sigurður Sigurveinsson þátt í verkefninu.
Hópurinn í Tryggvagarði að loknum vel heppnuðum vinnufundi, en hér fyrir neðan eru setið á rökstólum í Fjölheimum