Á dögunum heimsótti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Suðurlandið og kom meðal annars við í Fjölheimum í fylgd Fjólu S. Kristinsdóttur bæjarstjóra Árborgar, Braga Bjarnasyni forseta bæjarstjórnar og Sveini Æ. Birgissyni úr bæjarstjórn, þar sem hún hitti fulltrúa HfSu og Orkídeu. Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri HfSu, kynnti starfsemi félagsins og hugmyndir um eflingu háskólanáms og aðstöðu til nýsköpunar í greinum tengdum atvinnulífinu á svæðinu. Mjög góðar samræður spunnust um möguleika svæðisins og ljóst að margt spennandi er í pípunum.