Metfjöldi próftaka
Haustannarprófin standa nú sem hæst í framhaldsskólum og háskólum landsins. Í Fjölheimum á Selfossi rekur Háskólafélag Suðurlands umfangsmikla prófaþjónustu fyrir nemendur hinna ýmsu skóla. Mánudagurinn 11. desember 2017 markar nokkur tímamót í þessu sambandi því hann verður annasamasti prófadagurinn hingað til en þá eru 72 nemendur skráðir til prófs; 43 fyrir hádegi og 29 eftir hádegi. Um er að ræða nemendur Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum, Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, Keilis, Fjölbrautaskólans við Ármúla og Verkmenntaskólans á Akureyri.
Lesaðstaðan í Fjölheimum er líka mikið notuð þessa dagana, bæði lesstofan sjálf en einnig kennslustofur sem nemendur hafa afnot af, ekki síst á kvöldin og um helgar.
Merkisafmæli
Nú um áramótin hefur Háskólafélagið rekið þekkingarsamfélag í Fjölheimum í fimm ár, og 19. desember 2017 er áratugur liðinn frá stofnfundi félagsins 2007.
Blómlegt starfsmannafélag
Ný stjórn Starfsmannafélags Fjölheima (Ingunn frá Háskólafélaginu, Elísabet frá Birtu og Þorsteinn frá Markaðsstofunni) lætur hendur standa fram úr ermum. Í dag, sunnudaginn 10. desember, bauð hún börnum og barnabörnum starfsmanna Fjölheima að koma í Fjölheima og mála piparkökur og drekka dýrindis súkkulaði,
Á sama tíma var opnaður 10. jólaglugginn í Árborg, í anddyri Fjölheima. Eins og myndin ber með sér var það bókstafurinn B sem þar leit dagsins ljós.