Þriðjudaginn 10. janúar 2017 var haldinn hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands þar sem einnig voru veitt Menntaverðlaun Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Þetta var í 15. sinn sem styrkurinn var veittur en í 9. sinn sem menntaverðlaunin voru veitt.
Styrkþegar Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands 2016 voru annars vegar doktorsneminn Aldís Erna Pálsdóttir en verkefni hennar snýr að áhrifum breytinga á landnotkun á vaðfuglastofna og er unnið við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Hins vegar sameiginlegt meistaraprófsverkefni þeirra Anítu Þorgerðar Tryggvadóttur og Ingibjargar Steinunnar Sæmundsdóttur í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslans. Verkefni þeirra snýr að fjölþættri heilsurækt eldri borgara með markvissri íhlutun í formi daglegrar hreyfingar. Verkefnið er m.a. unnið í samvinnu við sveitarfélög í Rangárþingi. Nánar má lesa um verkefni styrkþeganna hér. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá styrkþegana ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Sveini Aðalsteinssyni formanni sjóðsstjórnar.
Menntaverðlaun SASS komu að þessu sinni í hlut Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn (FAS) fyrir náttúrufarsrannsóknir nemenda hans sem staðið hafa allt frá árinu 1990 og taka m.a. til mælinga á hopun jökla, framvindu gróðurs á Skeiðarársandi og fuglarannsókna. Skólinn hefur í þessu sambandi verið í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands. Nánar má lesa um tilnefningar til menntaverðlaunanna hér en alls bárust tíu tilnefningar að þessu sinni. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þær Hjördísi Skírnisdóttur kennara í FAS og Hildi Þórsdóttur áfangastjóra FAS ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Gunnari Þorgeirssyni formanni stjórnar SASS.
Eins og ævinlega heiðraði forseti Íslands hátíðarfundinn með nærveru sinni. Ólafur Ragnar Grímsson hafði gert það fjórtán sinnum en nú fetaði Guðni Th. Jóhannesson í fótspor fyrirrennara síns hvað þetta varðar.
Myndirnar tók Magnús Hlynur Hreiðarsson.