Nafn: Steinunn Hödd Harðardóttir
Aldur: 38 ára
Starf: Þjóðgarðsvörður á austurhluta suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi: Vestmannaeyjar eiga stóran stað í hjarta mínu – en það jafnast fátt á við góðan sumardag í Ásbyrgi.
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Ég sé um meirihluta eldamennskunar, en eignmaðurinn fær alveg að sjá um alla villibráð og grillið!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Lengst af ætlaði ég mér að verða tannlæknir og í öllum starfskynningum í grunnskóla fór ég á tannlæknastofur og vann meira að segja á tannlæknastofu sumarið eftir útskrift úr framhaldsskóla. Ég hóf svo nám í tannlæknadeild haustið 2005, en komst mjög fljótt að því að mér fannst líffræðin sem var kennd í náminu miklu skemmtilegri, svo ég skipti fljótt yfir.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Bókin Atomic habits er búin að vera á náttborðinu í nokkra mánuði.. ég get vonandi klárað hana í sumar.
Hvað á að gera um helgina? Um helgina ætla ég að liggja yfir mastersritgerðinni minni sem ég á að skila í 3. maí n.k. Ef vel gengur og veðrið er gott verður svo tekin vortiltekt í garðinum.
Áttu gæludýr? Við fjölskyldan eigum hundinn Dana sem er 5 ára GSP. Voða ljúfur og góður veiðihundur með stóran karakter.
Kaffi eða te? Það er fátt sem toppar góðan kaffibolla, en piparmintute er að koma sterkt inn þessa dagana.
Hver er þín helsta líkamsrækt? Ég reyni að komast í Sporthöllina og lyfta lóðum 4-5 sinnum í viku, og svo fer ég í jóga 3 sinnum í viku. Á sumrin reyni ég svo að labba allar gönguleiðirnar sem eru innan suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, en það er nú misjafnt hversu vel mér tekst það.
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Ég vel nú yfirleitt öruggu leiðina þegar kemur að mat, en í Rovaniemi í Finnlandi smakkaði ég mauksoðið hreindýrakjöt sem var mótað í einhvers konar köku.. það var alls ekki gott. Tengdaforeldrar mínir hýstu líka einu sinni skiptinema frá Equador sem eldaði einhvern þjóðarrétt sem innihélt bæði rækjur og poppkorn.. það var mjög skrítið.
Sumar, vetur, vor eða haust? Allar árstíðirnar hafa sína kosti, en sumar á Íslandi er best.
Áttu þér uppáhalds vorfugl? Það er alltaf gaman þegar maður heyrir í og sér fyrstu kríurnar hér á Höfn.
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlónið) á landinu? Það er mikið áhugamál fjölskyldunnar að prófa nýjar sundlaugar þegar við ferðumst um landið, en mér fannst sérstaklega gaman að prófa Lýsulaugar á Snæfellsnesi.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndirðu fara? Mig hefur alltaf langað að fara til Ástralíu.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni við umhverfið? Einn kosturinn við að búa á litlum stað úti á landi er sá að maður þarf lítið að nota bílinn, en ég reyni að nota hann eins lítið og ég kemst upp með. Síðan reyni ég að vera meðvituð í innkaupum, bæði í með því að kaupa eins mikið innlent og umhverfisvænt, en líka með því að kaupa ekki óþarfa og kaupa frekar hluti með sögu.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna? Að reyna að njóta ferðalagsins. Þetta er oft erfitt og það koma tímar þar sem manni finnst ekkert ganga, en svo smellur allt saman og allt gengur upp. Þetta klárast á endanum og alvaran tekur við, svo það er alveg eins gott að njóta námstímans á meðan hann varir.
Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland? Rannsóknin mín snýst um það hvernig hægt er að nota ákveðin stjórntæki sem hið opinbera hefur yfir að búa til þess að efla byggðaþróun á landsbyggðinni. Ég tek sem dæmi ferðaþjónustu í sveitarfélaginu Hornafirði, sérstaklega þá þætti hennar sem stundaðir eru innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni? Ég valdi rannsóknarefnið fyrst og fremst út frá mínum stærstu verkefnum í starfi, sem mörg hver snerta ferðaþjónustuna. Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs er það svæði þjóðgarðsins sem þarf hvað mest að eiga við ferðaþjónustuna, enda aðgengi að jöklinum mjög gott á suðursvæði. Hér erum við með frábært tækifæri til þess að nýta opinbera stofnun sem tól í byggðaþróun á landsbyggðinni.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna? Mér fannst mjög skemmtilegt að grúska í sögu ferðaþjónustu á Jökulsárlóni og á Breiðamerkursandi öllum. Það er talið að fyrst hafi verið siglt með ferðamenn á Jökulsárlóni árið 1968, en það voru ljósmyndarar og fyrirsætur frá Vogue tímaritinu, og voru það heimamenn á svæðinu sem stóðu fyrir því. Í kjölfar þess að James Bond myndin A view to a kill var að hluta til tekin upp á Jökulsárlóni árið 1984 hófust reglulegar siglingar með ferðamenn á lóninu. Og framhaldið þekkja flestir. Síðan var líka áhugavert að skoða íbúaþróun sveitarfélagsins og hvernig hún hefur sveiflast með sveiflum í ferðaþónustu.
Segðu okkar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli (500 orð c.a)
Í rannsókninni skoðaði ég þau stjórntæki sem hið opinbera hefur yfir að búa þegar kemur að leyfisveitingum og samningum um aðgang og nýtingu á landi í eigu hins opinbera í atvinnuskyni, en rannsóknarspurningarnar voru tvær; 1) Hvaða stjórntækjum hefur íslenska ríkið yfir að búa þegar kemur að úthlutun leyfa til nýtingu á náttúruperlum á landi í eigu ríkisins, og 2) hvernig megi útskýra það af hverju mismunun í þágu landsbyggðarinnar gæti átt rétt á sér við úthlutun slíkra samninga. Til þess að varpa frekara ljósi á aðstæður er fjallað um Vatnajökulsþjóðgarð, atvinnustefnu hans og þá atvinnustarfsemi sem á sér stað við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, og hvernig hægt er að nýta viðskiptasamninga um slíka starfsemi sem tól til þess að styðja við byggðaþróun á landsbyggðinni. Viðskiptasamningar eru samningar sem hið opinbera getur gert við einkaaðila til þess að bjóða upp á þjónustu sem hið opinbera hefur ákveðið að veita ekki, sem í þessu tilfelli er afþreyingarferðaþjónusta. Með gerð viðskiptasamninga eru fyrirtæki að kaupa sér rétt til þess að nýta ákveðið land í eigu ríkisins í hagnaðarskyni. Þegar það land er í námunda við náttúruperlur eða vinsæla ferðamannastaði getur það auki virði leyfisins, og það getur því verið mikill fjárhagslegur ávinningur fyrir ríkið, og hugsanlega viðkomandi sveitarfélög, að gera slíka samning sé eingöngu horft á upphæð samningsins. Samfélagslegur ávinningur slíkrar samningagerðar verður mun meiri þegar ekki er eingöngu horft á þann efnahagslega ávinning sem fylgt getur slíkum samningum. Miklu frekar ætti að taka tillit til samfélagsins alls við samningagerðina. Meta þarf frumkvöðlastarf umsækjenda; hafa þeir sinnt viðkomandi þjónustu áður á svæðinu sem um ræðir? Einnig þarf að horfa til þeirrar uppbyggingar sem umsækjendur um samninga hafa nú þegar staðið í, þátt þeirra í markaðssetningu svæðisins og starfseminnar sem um ræðir, samfélagsstefnu fyrirtækja og markmiða þeirra í uppbyggingu og þróun samfélagsins. Þannig getur hið opinbera, og opinberar stofnanir, verið virkur þátttakandi í byggðaþróun, og samfélagsþróun minni byggðarlaga á landsbyggðinni. Stjórntækin eru til staðar, það þarf bara að beita þeim á réttan hátt.
Rannsóknargagna var aflað með greiningu útgefnu efni, svo sem lögum og reglugerðum, hinum ýmsu þingskjölum, skýrslum, úttektum og öðrum rannsóknum, auk þess sem rætt var við aðila sem gátu dýpkað skilning minn á viðfangsefninu, svo sem varðandi sögu ferðaþjónustu á svæðinu. Við greiningu gagnanna voru þau skoðuð út frá hinum ýmsu stjórntækjum sem almennt eru notuð í stjórnsýslu, en sem dæmi um önnur stjórntæki sem oft eru notuð má nefna styrki, félagslegar- og hagrænar reglur. Niðurstaðan var sú að það þau stjórntæki sem henta best við þessar tilteknu aðstæður eru viðskiptasamningar. Þar sem fyrir hendi er vilji stjórnvalda til þess að stuðla að byggðaþróun á landsbyggðinni er skynsamlegt að taka félagshagfræðileg markmið samfélaga inn í samningagerðina, og gera þá þannig úr garði að þeir stuðli að sjálfbærri byggðaþróun og geri minni heimafyrirtækjum hærra undir höfði og veiti þeim ákveðið forskot á stærri aðila sem ekki eru úr heimabyggð.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er þannig úr garði gerð að sveitarfélögin sem eiga land í þjóðgarðinum hafa töluvert um stjórnun þjóðgarðsins að segja, bæði í gegnum svæðisráð og stjórn þjóðgarðsins.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa góðar vísbendingar um beitingu stjórntækja til að ná markmiðum um sjálfbærni samfélaga. Af rannsókninni má því draga ákveðinn lærdóm fyrir stefnumótun og stjórnun. Afstaða þjóðgarðsins til málsins er skýr, en eitt af markmiðum hans er að styðja við og efla atvinnusköpun í samfélögunum í kringum þjóðgarðinn. Það sem uppá vantar er skýr afstaða hins opinbera til þess að nota það stjórntæki sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur yfir að búa til þess að vera jákvætt afl í byggðaþróun á áhrifasvæðum þjóðgarðsins.