Nú í byrjun júní fór fram fyrsta úthlutun úr hinum nýja Vaxtarsamningi Suðurlands, en hann tekur nú einnig til Sveitarfélagsins Hornafjarðar. 22 umsóknir bárust en 11 þeirra fengu framgang að þessu sinni, og var úthlutað samtals 19,1 mkr. Háskólafélag Suðurlands átti aðild að tveimur umsóknum og fékkst styrkur til þeirra beggja.
Annars vegar er um að ræða átaksverkefni félagsins í Uppsveitum Árnessýslu – matvælasmiðja, en það er samstarfsverkefni með Matís og sveitarfélögunum fjórum á svæðinu. Til þessa verkefnis fengust 2 mkr.
Hins vegar er um að ræða samstarfsverkefni fjölmargra aðila um fuglaferðamennsku á Suðurlandi. Rannókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi leiðir verkefnið en markmið þess er að efla fræðslutengda ferðamennsku á Suðurlandi með sérstakri áherslu á fuglalífið. Til þessa verkefnis fengust einnig 2 mkr.