Fimmtudaginn 14. janúar 2021 var haldinn hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í Fjölheimum á Selfossi. Að þessu sinni voru aðeins 10 manns viðstaddir vegna sólttvarnaraðgerða en fundinum var jafnframt streymt á netinu og fylgdist á fjórða tug með honum með þeim hætti. Eins og áður heiðraði forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, samkomuna með nærveru sinni.
Að þessu skiptist styrkur sjóðsins milli þriggja styrkþega:
- Benedikt Traustason, en hann vinnur að meistararitgerð í líffræði við Háskóla Íslands. Verkefnið nefnist Vistfræði birkis á Suðurlandi og takmarkandi þættir fyrir landnám þess. Samhliða loftslagsbreytingum hefur sjálfgræðsla birkis aukist en verkefni Benedikts miðar m.a. að því að afla skilnings á því hvaða staðbundnu aðstæður liðka fyrir eða hamla viðgangi og landnámi birkis á Suðurlandi.
- Catherine R. Gallagher, en hún vinnur að doktorsverkefni í jarðfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið nefnist Characterising ice-magma interactions during a shallow subglacial fissure eruption: northern Laki, a case study. Rannsóknin fjallar um samspil íss og kviku í sprungugosi undir þunnri jökulhettu og nýtir sér Skaftáreldana 1783-84 sem vettvangsdæmi. Skilningur á eldvirkni við fyrrnefndar aðstæður er mikilvægur þar sem jöklar hörfa nú æ meir.
- Maite Cerezo, en hún vinnur að doktorsverkefni í líffræði við Háskóla Íslands. Verkefnið nefnist Tengsl varpþéttleika, atferlis og stofnstjórnunar hjá spóa. Ein birtingarmynd hnignandi líffjölbreytni er mikil fækkun farfugla, og vega þar þungt eyðing búsvæða af mannavöldum auk loftslagsbreytinga. Sunnlendingar bera ábyrgð á stórum hluta heimsstofns spóans og er þess vænst að rannsóknin geti stutt við vernd spóastofnsins og skyldra tegunda.
Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands er samstarfsverkefni Fræðslunetsins og Háskólafélagsins en bakhjarlar sjóðsins eru fjölmörg fyrirtæki, félög, stofnanir og sveitarfélög á Suðurlandi. Árlega eru veittir styrkir úr sjóðnum til lokaverkefna á háskólastigi, nú í nítjánda sinn. Sunnlendingar geta verið stoltir af þessu framtaki sínu en sambærilega sjóði er ekki að finna í öðrum landshlutum.
Catherine R. Gallagher til vinstri og Tómas Grétar Gunnarsson staðgengill Maite Cerezo til hægri
Álfur Birkir Bjarnason staðgengill Benedikts Traustasonar. Vegna sóttvarnarreglna var hverju sinni tveir metrar milli forseta vors, Guðna Th. Jóhannessonar og viðkomandi styrkþega. Myndirnar tók Eyjólfur Sturlaugsson.
Í lok fundarins voru svo kynntir handhafar Menntaverðlauna Suðurlands 2020 en Samtök sunnlenskra sveitarfélaga standa að þeim á grundvelli tilnefninga frá almenningi. Styrkhafarnir að þessu sinni voru grunnskólakennararnir Snjólaug Elín Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir en þær starfa við Grunnskóla Vestmannaeyja.