Tveir áhugaverðir fundir voru haldnir í Fjölheimum í síðustu viku janúar 2014 í samvinnu við SASS, Samband sunnlenskra sveitarfélaga. Þriðjudaginn 28. janúar var haldinn fundur um Íslenska bæinn, en þar er um að ræða uppbyggingu á gömlu bæjarhúsunum í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi. Jafnframt hefur þar verið komið upp sýningarskála og fleiri byggingum. Á fundinum voru kynntar hugmyndir um að gera staðinn að einum af seglum Suðurlands í uppbyggingu menningartengdar ferðaþjónustu. Meðal fyrirlesara voru Hannes Lárusson frumkvöðull í Austur-Meðalholtum, Hildigunnur Sverrisdóttir frá Listaháskóla Íslands, Sigurjón B. Hafsteinsson frá Háskóla Íslands, Sigurður Sigursveinsson frá Háskólafélagi Suðurlands, Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður og markaðsfræðingarnir Gísli Jóhann Eysteinsson og Hjörtur Harðarson. Stefnt er að því að hefja formlega starfsemi í Meðalholtum nú í vor. Þá er stefnt þar að alþjóðlegum sumarnámskeiðum en í fyrra var þar tilraunakennt námskeið sem nýtir aðstöðuna í Íslenska bænum. Föstudaginn 31. janúar var svo haldin kynning á vegum Rannís á nokkrum nýjum mennta- og rannsóknaráætlunum Evrópusambandsins en Ísland hefur um árabil átt aðild að þeim í gegnum EES samninginn. Andrés Lárusson , Viðar Helgason og Hjörtur Ágústsson höfðu framsögu á fundinum og má skoða þær með því að smella á nöfn fyrirlesaranna. Einnig var kynnt vefsíða, http://www.evropusamvinna.is/, þar sem má sjá gagnagrunn um fyrri Evrópuverkefni eftir sveitarfélögum. Kynningin var jafnframt send með fjarfundarbúnaði til Hafnar, Víkur og Vestmannaeyja. |